Ísland teflir fram öflugu liði gegn Ítalíu í undankeppni HM karla í körfuknattleik en tveir leikir eru fram undan gegn Ítölum. Ísland á heimaleik á fimmtudagskvöldið og leikurinn á Ítalíu verður á sunnudagskvöldið.
Tilkynnt var í gær að Craig Pedersen landsliðsþjálfari hafi valið fimmtán leikmenn vegna leikjanna. Áður hafði verið tilkynnt hvaða tuttugu og fjórir leikmenn kæmu til greina og eru því níu leikmenn til taks ef á þarf að halda.
Ísland er með mjög sterkan hóp að þessu sinni. Eitt sterkasta lið sem Ísland hefur teflt fram í langan tíma, meðal annars vegna endurkomu Hauks Helga Pálssonar sem var á sjúkralistanum í hálft ár.
Martin Hermannsson er klár í slaginn en hann lék síðast með Valencia á föstudagskvöldið. Hefði Valencia farið lengra í spænsku bikarkeppninni, Copa del Rey hefði Martin spilað leiki síðasta laugardag og sunnudag. Til þess kom ekki en mikilvægi Martins fyrir íslenska landsliðið sást vel í útisigrinum gegn Hollendingum í nóvember þegar hann skoraði 27 stig. Þó var það ekki einu sinni leikur þar sem hlutirnir gengu fullkomlega upp í sókninni hjá íslenska liðinu því liðið tapaði boltanum oft.
Greinin í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag