Fyrir keppnina í NBA-deildinni þetta árið spáði undirritaður á þessum síðum að Brooklyn Nets væri sigurstranglegasta liðið þetta keppnistímabil, enda með þrjár stórstjörnur sem virtust óstöðvandi. Bætt var við í lokin að þetta væri jú að venju háð alvarlegum meiðslum lykilleikmanna.
Á undanförnum fjórum mánuðum hefur sú viðbót heldur betur komið inn í reikninginn, því í dag er erfitt að sjá þetta Brooklyn lið – sem hefur tapað átta af síðustu tíu leikjum sínum – ná sér af meiðslum Kevins Durants og allri vitleysunni í kringum möguleika Kyrie Irvings að leika heimaleiki liðsins.
Til að bæta gráu ofan á svart, ákvað James Harden – sem neyddi Houston til að senda sig til Brooklyn í leikmannaskiptum á síðasta keppnistímabili – að hann væri búinn að fá nóg eftir ársveru í Brooklyn og neyddi nú forráðamenn Brooklyn í leikmannaskipti við Philadelphia 76ers. Öll þessi sápuópera hefur gert það að verkum að Brooklyn er nú í áttunda sæti í Austurdeildinni og erfitt að sjá liðið skríða hratt upp í stöðunni í sterkri keppninni austan megin.
Það eru fáir aðdáendur NBA-boltans sem hafa samúð með Brooklyn í þessari stöðu, því margir NBA-eðjótar eru orðnir þreyttir á leikmönnum sem gefast fljótt upp á sínum nýju liðum eftir að þeir neyddu fyrri lið í leikmannaskipti. Það er hins vegar lítið sem deildin sjálf getur gert í þessari stöðu. Stjörnuleikmennirnir haga sér eins og alvöru stjörnur í himingeimnum, þeir riðla öllu í kringum sig þegar þeim hentar. Aðdráttaraflið dregur þá að öðrum stjörnum sem þeir halda að geti gefið þeim titilinn.
Greinin í heild sinni þar sem fjallað er um stöðu mála í Austurdeild NBA er í Morgunblaðinu í dag