DeMar DeRozan átti enn einn stórleikinn fyrir Chicago Bulls þegar liðið vann 112:108-heimasigur gegn Atlanta Hawks í bandarísku NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.
DeRozan skoraði 37 stig í leiknum, tók 6 fráköst og gaf þrjár stoðsendingar í leiknum og var þetta níundi leikurinn í röð sem DeRozan skorar 30 stig eða meira fyrir Chicago í einum leik.
Michael Jordan, einn besti körfuknattleiksmaður sögunnar, skoraði 30 stig eða meira í tíu leikjum í röð fyrir félagið frá desember 1990 fram í janúar 1991 og er DeRozan fyrsti leikmaðurinn til þess að skora 30 stig eða meira í níu leikjum í röð síðan Jordan gerði það.
Chicago hefur verið á miklu skriði í undanförnum leikjum en liðið er komið í efsta sæti austurdeildarinnar með 39 sigra og 21 tap.
Úrslit næturinnar í NBA:
Detroit – Cleveland 106:103
Brooklyn – Boston 106:129
Chicago – Atlanta 112:108
Minnesota – Memphis 119:114
Oklahoma – Phoenix 104:124
Portand – Golden State 95:132
Sacramento – Denver 110:128