Neita að taka á móti Rússum

Holland er í riðli með Íslandi, Rússlandi og Ítalíu.
Holland er í riðli með Íslandi, Rússlandi og Ítalíu.

Körfuknattleikssamband Hollands hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að sambandið hafni því að taka á móti Rússum. Ráðgert hafði verið að karlalandslið þjóðanna myndu mætast í Almere í Hollandi í riðli Íslands næstkomandi sunnudag.

Holland heimsótti Rússa til Perm og laut í lægra haldi, 69:80, í gær. Síðar um kvöldið vann Ísland frækinn 107:105-sigur á Ítalíu í H-riðlinum.

Í yfirlýsingunni segir að hollenska liðið hafi þegar verið komið á áfangastað þegar Rússar réðust inn í Úkraínu. Eftir að hafa íhugað alla möguleika vandlega hafi verið ákveðið að halda sig við það að spila leikinn í gær. Það hafi verið besti möguleikinn úr því að liðið var þegar komið til Rússlands.

Aukinheldur kom fram að eftir því sem á leið hafi það reynst Hollendingum erfitt að halda einbeitingu í leiknum eftir að hafa ákveðið að spila leikinn. Í yfirlýsingunni sagði auk þess skýrum orðum að Holland neiti að taka á móti Rússlandi á sunnudag.

Á körfuboltamiðlinum EuroHoops.net segir að nú sé beðið ákvörðunar FIBA en að fastlega sé búist við því að leikurinn muni ekki fara fram á sunnudag eins og upphafleg leikjadagskrá gerði ráð fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert