Tryggvi Snær Hlinason, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í körfuknattleik, setti Evrópumet í gær þegar hann fór á kostum í 107:105-sigri Íslands gegn Ítalíu í H-riðli undankeppni HM 2023 í Ólafssal að Ásvöllum.
Tryggvi skoraði 34 stig í leiknum, tók 21 frákast og var með fimm varin skot. Þá var hann með 87,5% skotnýtingu og skilaði þetta honum 50 framlagspunktum sem er mælikvarði á það hversu mikilvægur hann var liði sínu og hversu miklu hann skilaði til liðsins.
Til samanburðar má nefna að Elvar Friðriksson, sem var næststigahæstur íslenska liðsins með 25 stig, 7 stoðsendingar og fjögur fráköst, var með 20 framlagspunkta í gær.
50 framlagspunktar Tryggva eru nýtt Evrópumet en Bosníumaðurinn Edin Atic, Georgíumaðurinn Giorgi Shermadini og Janis Strelnieks frá Lettlandi átti gamla metið sem voru 37 framlagspunktur í leik. Þeim árangri náðu þeir allir á árinu 2019.
50 framlagspunktar Tryggva eru það hæsta sem leikmaður hefur náð innan Evrópu en Guna Ra frá Suður-Kóreu á heimsmetið sem eru 59 framlagspunktar í einum leik.
Því afreki náði hann árið 2018 gegn Sýrlandi og þá skilaði hann 58 framlagspunktum gegn Hong Kong sama ár.