Sverrir Þór Sverrisson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Grindavíkur í körfuknattleik og mun stýra liðinu út yfirstandandi tímabil. Jóhann Þór Ólafsson verður áfram aðstoðarþjálfari liðins.
Daníel Guðna Guðmundssyni var sagt upp störfum sem aðalþjálfara liðsins í vikunni og hafði körfuknattleiksdeild Grindavíkur því hraðar hendur í að finna eftirmann hans.
Þetta er í annað sinn sem Sverrir Þór stýrir liði Grindavíkur en hann gerði liðið að Íslandsmeisturum tímabilið árið 2013 og bikarmeisturum árið 2014. Sverrir Þór þjálfaði einnig kvennalið Grindavíkur tímabilið 2014-2015 og varð liðið þá bikarmeistari undir hans stjórn.
„Ég var ekki á leiðinni í þjálfun en þegar þetta tækifæri kom upp þá varð ég mjög spenntur. Eftir að hafa hugsað þetta vel og rætt við Jóhann Þór þá ákvað ég að kýla á þetta.
Ég á mjög góðar minningar frá tíma mínum með Grindavík og hugsa að ég hefði ekki tekið við neinu öðru liði á þessum tímapunkti.
Þetta tækifæri hreyfði við mér og er mjög spenntur að hefjast handa og hitta leikmannahópinn,“ sagði Sverrir Þór í tilkynningu frá körfuknattleiksd Grindavíkur.
Þar sagði einnig að nýtt þjálfarateymi hafi hitt leikmannahópinn núna síðdegis og að Sverrir Þór hafi þegar í stað hafist handa og stýrt sinni fyrstu æfingu.
Fyrsti leikur Grindavíkur undir stjórn Sverris Þórs fer fram föstudaginn 4. mars næstkomandi þegar nýliðar Vestra koma í heimsókn til Grindavíkur í úrvalsdeild karla, Subway-deildinni.