Fjölnir vann 93:83 sigur á Breiðabliki í Smáranum í Subway-deild kvenna í körfubolta í kvöld.
Gestirnir byrjuðu betur og voru níu stigum yfir að loknum fyrsta leikhluta. Þá tók Breiðablik við sér en frábær annar leikhluti varð til þess að liðið leiddi með 12 stigum í hálfleik.
Fjölnisliðið klóraði þó í bakkann og að loknum þriðja leikhluta var munurinn eitt stig. Að lokum voru það svo Grafarvogsbúar sem unnu tíu stiga sigur, 93:83.
Aliyah Daija Mazyck átti stórkostlegan leik í liði Fjölnis en hún skoraði 44 stig, tók 13 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Það skilaði henni í framlag upp á 49 punkta. Sanja Orozovic kom næst með með 23 stig.
Í liði Breiðabliks var Þórdís Jóna Kristjánsdóttir stigahæst með 25 stig. Ísabella Ósk Sigurðardóttir kom næst með 19 stig og 13 fráköst.
Með sigrinum fer Fjölnir upp að hlið Njarðvíkur á toppi deildarinnar. Bæði lið eru með 26 stig en Njarðvík tapaði fyrir Haukum í dag. Valur er í þriðja sæti með 24 stig svo það er æsispennandi toppbarátta framundan. Breiðablik er í sjötta og næst neðsta sæti deildarinnar með 10 stig, fjórum stigum meira en Grindavík.