Íslenska karlalandsliðið í körfubolta mátti þola 87:95-tap á útivelli gegn Ítalíu í undankeppni heimsmeistaramótsins í kvöld. Leikið var í Bologna.
Íslenska liðið lék afar vel í fyrsta leikhluta og Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson lék afar vel. Þá fékk Ísland sterk stig af bekknum og var staðan 28:27, Íslandi í vil þegar lokaflautið gall.
Ítalir komu hinsvegar sterkir inn í annan leikhluta og íslenska liðið réð illa við Amedeo Della Valle, sem raðaði inn stigum. Hinum megin fóru Ítalir að ráða betur við Elvar Már og Tryggvi Snær Hlinason náði sér ekki eins vel á strik og í heimaleiknum gegn Ítalíu á fimmtudaginn var. Þá saknaði íslenska liðið Martins Hermannssonar sem lék ekki vegna meiðsla.
Að lokum munaði átta stigum í hálfleik, 53:45. Ítalska liðið hélt áfram að bæta í forskotið í þriðja leikhlutanum þegar Michele Vitali átti góða spretti og reyndist fjórði og síðasti leikhlutinn nokkuð þægilegur fyrir Ítalíu.
Elvar Már Friðriksson átti stórleik fyrir Ísland og skoraði 30 stig og Jón Axel Guðmundsson bætti við 16. Tryggvi Snær Hlinason gerði 14 stig og þeir Ægir Þór Steinarsson og Kári Jónsson átta hvor. Pavel Ermolinskij gaf tíu stoðsendingar fyrir Ísland og tók 9 fráköst.
Rússland, Ítalía og Ísland eru öll með sex stig í riðlinum en Rússland hefur leikið einum leik minna. Holland er í neðsta sæti með þrjú stig og á einnig leik til góða. Þrjú efstu liðin fara áfram á næsta stig undankeppninnar.