Toppliðið fékk skell í Ljónagryfjunni

Keira Robinson stillir miðið en hún skoraði 27 stig í …
Keira Robinson stillir miðið en hún skoraði 27 stig í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Bikarmeistarar Hauka í körfuknattleik rótburstuðu topplið Njarðvíkur 86:57 í Ljónagryfjunni í Njarðvík í Subway-deild kvenna í dag. 

Bikarmeistararnir fóru rólega af stað síðast haust og þáttaka liðsins í Evrópukeppni hafði áhrif á spilamennsku liðsins hér heima. Nú virðast Haukakonur til alls líklegar enda liðið afar vel mannað. 

Njarðvík hafði þriggja stiga forskot að loknum fyrsta leikhluta en Haukar skoruðu tólf stigum meira í öðrum leikhluta og náðu tökum á leiknum. Haukar létu kné fylgja kviði í þriðja leikhluta og þá skoraði Njarðvík aðeins 8 stig. 

Keira Robinson skoraði 27 stig fyrir Hauka og gaf 6 stoðsendingar. Hún hefur fallið vel að leik liðsins eftir að hún kom frá Skallagrími. Helena Sverrisdóttir skoraði 17 stig og tók 8 fráköst. 

Aliyah Collier skoraði 15 stig fyrir Njarðvík. 

Njarðvík er í efsta sæti með 26 stig en Haukar í fjórða sæti með 22 stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert