Miðherjinn Tryggvi Snær Hlinason átti ótrúlegan leik fyrir íslenska landsliðið í körfubolta er liðið vann magnaðan 105:103-heimasigur á Ítalíu í tvíframlengdum leik í undankeppni HM á fimmtudaginn var.
Tryggvi skoraði 34 stig, tók 21 frákast og varði fimm skot. Hann var því með 50 framlagspunkta sem er nýtt met í undankeppni heimsmeistaramótsins.
Fyrir vikið var Tryggvi valinn í lið umferðarinnar. Þar er hann ásamt Sasu Salin frá Finnlandi, Giorgi Shermadini og Thaddus McFadden frá Georgíu og Vladimir Mihailovic frá Svartfjallalandi.
Ísland er mætt til Ítalíu þar sem liðin mætast á ný klukkan 19:30 í kvöld.