Valur vann 86:33 risasigur á Grindavík í Subway-deild kvenna í körfubolta á Hlíðarenda í kvöld.
Skemmst er frá því að segja að yfirburðir Vals voru gríðarlegir en Grindvíkingum mistókst að skora yfir 10 stig í fyrstu þremur leikhlutunum.
Hallveig Jónsdóttir var stigahæst í liði Vals en hún skoraði 18 stig. Ameryst Alston kom næst með 14 stig. Hjá Grindavík voru Thea Ólafía Lucic Jónsdóttir og Natalía Jenný Lucic Jónsdóttir stigahæstar með átta stig hvor.
Valur ætlar greinilega að vera með í toppbaráttunni en liðið er með 26 stig í 1.-3. sæti, líkt og Fjölnir og Njarðvík. Grindavík er sem fyrr á botninum með sex stig.