Bandarískur ólympíumeistari handtekinn í Rússlandi

Brittney Griner í leik með bandaríska landsliðinu.
Brittney Griner í leik með bandaríska landsliðinu. AFP

Bandaríska körfuknattleikskonan Brittney Griner er í varðhaldi í Rússlandi eftir að hún var handtekinn á Sheremetyevo-flugvellinum nærri Moskvu í síðustu viku.

Samkvæmt rússneskum yfirvöldum var Griner með hassolíu í farangri sínum þegar hún ætlaði að halda heim frá Rússlandi. Griner, sem er 31 árs, varð Ólympíumeistari með Bandaríkjunum í Tókýó síðasta sumar og í Ríó árið 2016. Hún hefur leikið með Phoenix Mercury í WNBA-deildinni í Bandaríkjunum frá árinu 2013.

Á meðan bandaríska deildin er í fríi hefur hún leikið með UMMC Ekaterinburg í Rússlandi á hverju tímabili frá árinu 2014 en launin í Rússlandi eru hærri en í bandarísku deildinni.

Gæti Griner átt yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsisvist fyrir tilraun til eiturlyfjasmygls. The New York Times greinir frá því að Rússar hafi á undanförnum árum dæmt bandaríska ríkisborgara í fangelsi fyrir ósannar sakir. 

Miðilinn greinir jafnframt frá því að Rússar gætu hafa handtekið Griner vegna þeirrar spennu sem ríkir á milli Bandaríkjanna og Rússlands. Rússar gætu farið fram á skipti á rússneskum föngum fyrir Griner.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert