Stefnan sett á þrefaldan sigur í vetur

Ástrós Lena Ægisdóttir og Þóra Kristín Jónsdóttir með danska bikarinn.
Ástrós Lena Ægisdóttir og Þóra Kristín Jónsdóttir með danska bikarinn. Ljósmynd/Jón Þorkelsson

Þóra Kristín Jónsdóttir og Ástrós Lena Ægisdóttir urðu um helgina danskir bikarmeistarar þegar lið þeirra Falcon frá Frederiksberg-hverfinu í Kaupmannahöfn vann gífurlega öruggan 90:54-sigur á Herlev í úrslitaleik bikarkeppninnar í körfuknattleik kvenna.

Landsliðskonan Þóra Kristín lék vel og skoraði níu stig, tók fjögur fráköst og gaf sex stoðsendingar ásamt því að stela einum bolta og blokka eitt skot. Ástrós Lena skoraði þrjú stig, tók þrjú fráköst og stal einum bolta.

„Tilfinningin er bara mjög góð. Þetta var mjög skemmtilegt en aðeins öðruvísi en heima þar sem maður er einhvern veginn svo rótgróinn í sínu félagi heima. Þetta var því aðeins öðruvísi tilfinning en mjög góð engu að síður. Þetta var mjög gaman,“ sagði Þóra Kristín í samtali við Morgunblaðið um sigurinn í danska bikarnum. Hún gekk til liðs við Falcon síðastliðið sumar eftir að hafa verið hjá uppeldisfélaginu Haukum alla tíð fyrir það en hún á að baki bæði Íslands- og bikarmeistaratitil með Hafnarfjarðarliðinu.

Staðan í hálfleik í úrslitaleiknum var 36:26. Spurð hvað hafi orðið þess valdandi að sigurinn hafi reynst jafn öruggur og raunin varð sagði Þóra Kristín: „Við í liðinu ræddum þetta einmitt í gær. Okkur fannst við bara smella saman í vörninni og þær líka eiginlega gefast svolítið upp.

Svo var spilamennskan góð hjá okkur og mér fannst við bara verða betri með hverjum leikhlutanum. Við náðum einhvern veginn ekki að slíta þær frá okkur í fyrsta, öðrum og þriðja leikhluta, það var alltaf svona sjö til tíu stiga munur, en svo í fjórða leikhluta small þetta saman hjá okkur.“

Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert