Blikar í úrslit í fyrsta sinn

Anna Soffía Lárusdóttir úr Breiðabliki með boltann í leiknum í …
Anna Soffía Lárusdóttir úr Breiðabliki með boltann í leiknum í dag. mbl.is/Arnþór Birkisson

Breiðablik er búið að tryggja sér sæti í úrslitaleik bikarkeppni kvenna í körfuknattleik, VÍS-bikarsins, með því að vinna öruggan 89:55 sigur á Snæfelli í undanúrslitum keppninnar í Smáranum í Kópavogi í kvöld. Þetta er í fyrsta skipti sem kvennalið Breiðabliks kemst í bikarúrslit.

Talsvert jafnræði var með liðunum til að byrja með en undir lok fyrsta leikhluta hófu Blikar að sigla aðeins fram úr og leiddu með sjö stigum 25:18, að honum loknum.

Blikar byrjuðu annan leikhluta af viðlíka krafti og þeir enduðu fyrsta leikhluta á og náðu fljótt ellefu stiga forystu, 31:20.

Í kjölfarið tókst hvorugu liðinu að skora um tæplega þriggja mínútna skeið. Eftir að Breiðablik tók leikhlé fóru bæði lið hins vegar að hitta betur og fóru allmargar þriggja stiga körfur niður, þá sér í lagi hjá Blikum.

Blikar enduðu annan leikhluta af svipuðum krafti og þann fyrsta. Eftir að hafa verið um tíu stigum yfir megnið af honum tókst þeim að auka forskot sitt undir lok leikhlutans. Komust Blikar mest 16 stigum yfir í honum, 46:30, og leiddu með 15 stigum, 48:33, í hálfleik.

Isabella Ósk Sigurðardóttir var gífurlega sterk í liði Blika sem endranær og var þegar komin með tvöfalda tvennu í hálfleik; 12 stig og tíu fráköst.

Í síðari hálfleik bættu Blikar bara í. Leikmönnum Snæfells gekk bölvanlega að hitta á meðan Blikar röðuðu niður þristum.

Mest náðu Blikar 27 stiga forystu í þriðja leikhluta, 71:44, og leiddu með 25 stigum, 71:46, að honum loknum.

Fjórði og síðasti leikhluti var því nokkurs konar formsatriði fyrir Breiðablik að klára.

Lítið sem ekkert var skorað til að byrja með í leikhlutanum, Blikar aðeins þrjú stig og Snæfell tvö á fyrstu þremur og hálfri mínútunni.

Um miðjan leikhlutann fundu Blikar hins vegar aftur fjölina og juku forskot sitt jafnt og þétt það sem eftir lifði leiks.

Mest varð það 34 stig undir þegar Breiðablik komst í 89:55. Það reyndust lokatölur og Blikar munu taka þátt í bikarúrslitum í fyrsta sinn á laugardaginn.

Michaela Kelly var stigahæst Blika og í leiknum með 20 stig, auk þess sem hún tók sex fráköst gaf sex stoðsendingar.

Isabella Ósk lauk þá leik með 19 stig og 17 fráköst.

Stigahæst í liði Snæfells var Preslava Koleva með 14 stig.

Gangur leiksins:: 2:4, 5:10, 16:19, 18:25, 20:31, 23:35, 30:40, 33:48, 35:53, 40:65, 44:71, 46:71, 46:74, 48:78, 53:83, 55:89.

Snæfell: Preslava Radoslavova Koleva 14/4 fráköst, Rebekka Rán Karlsdóttir 12/6 fráköst, Dagný Inga Magnúsdóttir 9, Minea Ann-Kristin Takala 8/11 fráköst, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 6, Vaka Þorsteinsdóttir 3, Gunnhildur Gunnarsdóttir 3.

Fráköst: 16 í vörn, 10 í sókn.

Breiðablik: Michaela Lynn Kelly 20/6 fráköst/8 stoðsendingar, Isabella Ósk Sigurðardóttir 19/17 fráköst, Birgit Ósk Snorradóttir 15/4 fráköst, Anna Soffía Lárusdóttir 11, Þórdís Jóna Kristjánsdóttir 10, Eyrún Ósk Alfreðsdóttir 7, Telma Lind Ásgeirsdóttir 4, Anna Lóa Óskarsdóttir 2, Selma Guðmundsdóttir 1.

Fráköst: 25 í vörn, 9 í sókn.

Dómarar: Kristinn Óskarsson, Sigurbaldur Frimannsson, Birgir Örn Hjörvarsson.

Áhorfendur: 138

Snæfell 55:89 Breiðablik opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka