Hefur ekkert æft en lék í undanúrslitum

Hart barist í leiknum í kvöld.
Hart barist í leiknum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Hildur Sigurðardóttir, margfaldur Íslandsmeistari í körfuknattleik, var í leikmannahópi Snæfells þegar liðið mátti sætta sig við 55:89-tap fyrir Breiðabliki í undanúrslitum VÍS-bikars kvenna í Smáranum í kvöld.

Hildur lék síðast af fullum krafti með Snæfelli árið 2015, þegar hún varð Íslandsmeistari með liðinu í annað sinn.

Í byrjun þessa árs fékk hún leikheimild með Snæfelli að nýju og hefur verið til taks þegar þörf er á. Hún lék rúmar 11 mínútur í kvöld.

„Þetta var virkilega skemmtilegt og ég var mjög ánægð með að hafa fengið tækifæri til þess að taka þátt í þessu með þeim. Ég hef ekki náð að mæta neitt á æfingar með þeim.

Það var útkall hjá Baldri [Þorleifssyni þjálfara Snæfells] og ég bara tók þeirri áskorun. Kaninn [Sianni Martin] datt út og Rósa [Kristín Indriðadóttir] datt líka út. Ég og Gunnhildur [Gunnarsdóttir] tókum okkur til og ákváðum að taka slaginn með þeim,“ sagði Hildur í samtali við mbl.is eftir leik.

Hildur Sigurðardóttir í leik með Snæfelli árið 2015.
Hildur Sigurðardóttir í leik með Snæfelli árið 2015. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er mjög ungt lið og efnilegar stelpur og það er kannski svolítið stórt skref að koma í undanúrslitaleik á móti úrvalsdeildarliði. Við töldum okkur hafa pínu styrk og kunnáttu og vonandi bara gagnast það þeim í framtíðinni,“ bætti hún við.

Hildur, sem er fertug, hefur ekkert getað æft á árinu en tók þrátt fyrir það þátt í tveimur leikjum í 1. deildinni og svo leiknum í kvöld.

„Ég spilaði tvo leiki í deildinni, mætti bara í leikina. Ég veit ekki hvernig dagarnir hjá mér eru þannig að ég vakna bara á morgnana og hugsa stundum: „Ég ætla að vera körfuboltakona í kvöld og mæti í leik“.“

Spurð hvort hún sjái fyrir sér að spila eitthvað á næsta tímabili sagði Hildur að lokum: „Það væri náttúrlega mjög gaman að geta æft aðeins og vera aðeins betri, eins og til dæmis í sókninni, maður er svolítið ryðgaður.

Eins og staðan er núna hef ég ekki alveg tök á því og skrokkurinn er kannski ekki sem bestur, maður er komin yfir fertugt. En þetta er skemmtilegt, mér fannst mjög gaman að hafa fengið tækifærið í kvöld.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert