„Við stefnum á að vinna bikarinn“

Stuðningsmenn Blika létu vel í sér heyra í kvöld.
Stuðningsmenn Blika létu vel í sér heyra í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Þórdís Jóna Kristjánsdóttir, leikmaður Breiðabliks, var í skýjunum með að liðið tryggði sér sæti í úrslitaleik VÍS-bikarsins í körfuknattleik kvenna í fyrsta skipti í sögunni með öruggum 89:55-sigri á Snæfelli í Smáranum í kvöld.

„Það er geggjað, geggjuð tilfinning. Við erum búnar að stefna að þessu síðan við komumst í undanúrslit í fyrsta skipti í bikarnum. Þetta er algjör draumur. Það eru öll lið sem vilja þetta og þetta gerist ekki betra,“ sagði Þórdís Jóna í samtali við mbl.is eftir leik.

Spurð hver lykillinn hafi verið að þetta öruggum sigri sagði hún:

„Það var að passa að vanmeta þær ekki. Svo eins og Ívar [Ásgrímsson þjálfari Breiðabliks] sagði þá tekur það tíma að komast yfir, ekki að vera að búast við því að vera komin strax 20 stigum yfir.

Svo var það að spila góða vörn og vera allar saman í þessu eins og sást. Við vorum allar saman og allar tilbúnar. Ég er ótrúlega stolt af liðinu.“

Þórdís Jóna Kristjánsdóttir, lengst til hægri, skoraði tíu stig fyrir …
Þórdís Jóna Kristjánsdóttir, lengst til hægri, skoraði tíu stig fyrir Breiðablik í kvöld. Kristinn Magnússon

Smárinn er heimavöllur Blika, þar sem bikarúrslitahelgin fer fram bæði kvenna- og karlamegin. Það skemmir varla fyrir að spila á heimavelli?

„Nei, alls ekki. Það er geggjað að þetta sé haldið í Smáranum. Það er ógeðslega gaman að fara í höllina [Laugardalshöll], það er ákveðin stemning sem fylgir því en það er geggjað að vera á heimavelli. Ég held að öll lið myndu vilja að þetta væri heima hjá sér.“

Úrslitaleikur bíður Blika á laugardagskvöld þar sem annað hvort Njarðvík eða Haukar bíða. „Ég vona að öll stúkan verði græn og að það mæti allir hérna á laugardagskvöldið,“ sagði Þórdís Jóna.

Spurð hvort Blikar ættu sér einhvern óskamótherja í úrslitaleiknum sagði hún að lokum:

„Nei svo sem ekki. Við höfum unnið Njarðvík áður, við höfum unnið Hauka áður þannig að það skiptir þannig séð ekki máli. Ég held að það henti okkur betur að mæta Njarðvík en úrslit í bikar er bara geggjað. Við stefnum á að vinna bikarinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert