Anna Ingunn Svansdóttir var stigahæst í liði Keflavíkur þegar liðið gerði sér lítið fyrir og lagði Íslandsmeistara Vals að velli í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, Subway-deildinni, í Blue-höllinni í Keflavík í 26. umferð deildarinnar í kvöld.
Leiknum lauk með tveggja stiga sigri Keflavíkur, 74:72, en Anna Ingunn skoraði 25 stig í leiknum ásamt því að taka tvö fráköst og gefa fjórar stoðsendingar.
Staðan var jöfn eftir fyrsta leikhluta, 20:20, en Valskonur voru sterkari í öðrum leikhluta og leiddu með 13 stigum í hálfleik, 48:35.
Valskonur byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og leiddu 63:56 að þriðja leikhluta loknum. Keflavík skoraði hins vegar 18 stig gegn 9 stigum Vals í fjórða leikhluta og þar við sat.
Daniela Wallen skoraði 20 stig fyrir Keflavík og tók 20 fráköst en Ameryst Alston var stigahæst í liði Vals með 27 stig, 11 fráköst og fjórar stoðsendingar.
Keflavík er með 18 stig í fimmta sæti deildarinnar og hefur að litlu að keppa en Valur er með 28 stig í öðru sætinu, tveimur stigum minna en topplið Fjölnis en bæði lið hafa leikið 22 leiki.