Aliyah Collier átti enn einn stórleikinn fyrir Njarðvík þegar liðið vann öruggan sigur gegn Breiðabliki í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, Subway-deildinni í Ljónagryfjunni í Njarðvík í 26. umferð deildarinnar í kvöld.
Leiknum lauk með 82:55-sigri Njarðvíkur en Collier skoraði 17 stig í leiknum, ásamt því að taka 18 fráköst og gefa þrjár stoðsendingar.
Njarðvík leiddi með átta stigum í hálfleik, 39:31, en Breiðablik skoraði einungis 24 stig í síðari hálfleik gegn 43 stigum Njarðvíkur og þar við sat.
Diane Diéné skoraði 15 stig fyrir Njarðvík og tók átta fráköst en Isabella Ósk Sigurðardóttir og Anna Soffía Lárusdóttir voru stigahæstar í liði Breiðabliks með 14 stig hvor.
Njarðvík er með 28 stig í fjórða sæti deildarinnar, líkt og Haukar og Valur, en Haukar og Valur eiga tvo leiki til góða á Njarðvík. Breiðablik er í sjötta sætinu með 12 stig.