Meistarar í fyrsta sinn í sögu félagsins

Fjölniskonur fagna deildarmeistaratitilinum.
Fjölniskonur fagna deildarmeistaratitilinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjölnir er deildarmeistari kvenna í körfuknattleik í fyrsta sinn í sögu félagsins eftir 75:86-tap gegn Val í úrvalsdeild kvenna, Subway-deildinni, í Dalhúsum í Grafarvogi í lokaumferð deildarinnar í kvöld.

Fjölnir var með tveggja stiga forskot á Val fyrir lokaumferðina en Valskonur hefðu þurft að vinna leikinn með 25 stiga mun til þess að tryggja sér deildarmeistaratitilinn.

Valskonur voru skrefi á undan allan leikinn og leiddu 19:17 eftir fyrsta leikhluta en staðan í hálfleik var 40:34, Val í vil.

Fjölnir minnkaði forskot Vals í þrjú stig í þriðja leikhluta í 57:60 en Valskonur voru sterkari í fjórða leikhluta og fögnuðu sigri.

Aliyah Mazyck átti enn einn stórleikinn fyrir Fjölni, skoraði 40 stig og tók 14 fráköst en Ameryst Alston var stigahæst í liði Vals með 30 stig og fimm fráköst.

Fjölnir endaði í efsta sæti deildarinnar með 32 stig, líkt og Valur sem endaði í öðru sæti, en Fjölniskonur voru með betri innbyrðisviðureign á Val. Þetta er jafnframt fyrsti bikar Fjölnis í boltaíþrótt sem mætir Njarðvík í undanúrslitum Íslandsmótsins en Haukar mæta Val.

Lovísa Björt Henningsdóttir átti stórleik fyrir Hauka.
Lovísa Björt Henningsdóttir átti stórleik fyrir Hauka. mbl.is/Árni Sæberg

Haukar tryggðu sér þriðja sæti deildarinnar með sigri gegn Breðabliki að Ásvöllum í Hafnarfirði þar sem Lovísa Björt Henningsdóttir fór á kostum í liði Hauka.

Lovísa skoraði 31 stig og tók fjögur fráköst í leiknum sem lauk með 74:65-sigri Hafnfirðinga.

Blikar byrjuðu leikinn betur og leiddu 13:10 eftir fyrsta leikhluta en Haukar voru sterkari í öðrum leikhluta og leiddu 40:36 í hálfleik.

Haukar leiddu með fjórum stigum eftir þriðja leikhluta, 59:55, og Breiðabliki tókst ekki að snúa leiknum sér í vil í fjórða leikhluta.

Eva Margrét Kristjánsdóttir skoraði 14 stig fyrir Hauka og tók þrjú fráköst en Þórdís Jóna Kristjánsdóttir var stigahæst í liði Breiðabliks með 18 stig og fjögur fráköst en Blikar enduðu í sjöunda sætinu.

Daniela Wallen var stigahæst Keflvíkinga.
Daniela Wallen var stigahæst Keflvíkinga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þá skoraði Daniela Wallen 22 stig og tók 17 fráköst fyrir Keflavík þegar liðið vann tíu stiga sigur gegn Njarðvík í Blue-höllinni í Keflavík.

Keflavík var sterkari aðilinn allan tímann og leiddi 39:28 í hálfleik en leiknum lauk með 72:62-sigri Keflavíkur.

Ólöf Rún Óladóttir skoraði 12 stig fyrir Keflavík sem endar í fimmta sætinu með 22 stig en Aliyah Collier var stigahæst í liði Njarðvíkur með 34 stig og 15 fráköst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert