Friðrik hættur þjálfun

Friðrik Ingi Rúnarsson stýrir ÍR í leik gegn Þór frá …
Friðrik Ingi Rúnarsson stýrir ÍR í leik gegn Þór frá Akureyri í febrúar síðastliðnum. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Friðrik Ingi Rúnarsson, körfuboltaþjálfarinn þrautreyndi og sigursæli, er hættur sem þjálfari karlaliðs ÍR og hefur sömuleiðis ákveðið að hætta þjálfun alfarið.

Frá þessu er greint á heimasíðu Eiríks Jónssonar.

Friðrik Ingi, sem er 53 ára gamall, tók við ÍR um mitt keppnistímabil þegar liðið var í fallsæti í úrvalsdeildinni, Subway-deildinni. Skilaði hann því upp í 10. sæti og bjargaði þar með frá falli.

Raunar var ÍR að lokum nær því að komast í úrslitakeppnina en að falla þar sem liðið var fjórum stigum frá áttunda sætinu, því síðasta sem tryggir sæti í úrslitakeppninni, og var átta stigum fyrir ofan Vestra sem féll eftir að hafa hafnað í 11. sæti.

Á ferli sínum hefur Friðrik Ingi þjálfað bæði karla- og kvennalið uppeldisfélags síns Njarðvíkur og sömuleiðis Grindavíkur. Þá hefur hann þjálfað karlalið ÍR, KR, Þórs frá Þorlákshöfn og íslenska A-landsliðsins.

Þrisvar sinnum hefur hann gert karlalið að Íslandsmeisturum, Njarðvík í tvígang og Grindavík einu sinni.

Þá hafa lið undir hans stjórn alls farið sjö sinnum í úrslitarimmuna um Íslandsmeistaratitilinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert