Komumst í hausinn á þeim

Dagný Lísa Davíðsdóttir sækir að vörn Njarðvíkur í kvöld.
Dagný Lísa Davíðsdóttir sækir að vörn Njarðvíkur í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta lá mikið í vörninni. Þær hafa verið að skora mikið á okkur í vetur, sérstaklega Aliyah [Collier] og Lavina [De Silva]. Það var lykilatriði að halda þeim í skefjum,“ sagði landsliðskonan Dagný Lísa Davíðsdóttir í samtali við mbl.is í kvöld.

Dagný skoraði 16 stig og tók 10 fráköst fyrir Fjölni er liðið vann 69:62-heimasigur á Njarðvík í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfubolta í Dalhúsum í Grafarvoginum í kvöld.

Njarðvík komst í 9:0 og 12:2 í upphafi leiks en Fjölnir svaraði með 21 stigi í röð og létu forystuna aldrei af hendi eftir það.

„Þær byrjuðu rosalega vel og skoruðu úr fyrstu 3-4 þristunum sem þær tóku en við vissum að það skýtur ekkert lið 100% í leik og þær enda í 30% sem er eðlilegt fyrir þær. Við treystum okkar plani og spiluðum vörnina sem við vildum spila og héldum því áfram allan leikinn.

Þær urðu svolítið pirraðar og við komumst í hausinn á þeim. Það voru einhverjir dómar sem þær vildu fá en fengu ekki og þá fór svolítið hausinn á þeim á meðan við gerðum vel í að halda haus okkar megin. Mér leið alltaf vel en svo horfði ég á stigatöfluna og sá þetta var hægt hjá þeim en við vissum hvað var að virka og við héldum því áfram,“ útskýrði Dagný.

Liðsfélagi hennar Aliyah Mazyck fékk sína aðra óíþróttamannslega villu undir lok leiks og var vikið í sturtu. Dagný var ekki sannfærð um að það hafi verið réttur dómur.

„Ég sá það en greinilega ekki nógu vel. Dómarinn sá eitthvað þarna og reglur eru reglur og eina reglan sem við verðum að fylgja er að dómararnir ráða og við verðum að lifa með því,“ sagði Dagný Lísa.    

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka