Njarðvík jafnaði einvígið

Diane Diéné Oumou skoraði 20 stig fyrir Njarðvík í kvöld.
Diane Diéné Oumou skoraði 20 stig fyrir Njarðvík í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Njarðvík vann öruggan 80:66-sigur á deildarmeisturum Fjölnis í öðrum leik liðanna í undanúrslitaeinvígi þeirra í körfuknattleik kvenna í Ljónagryfjunni í Njarðvík kvöld og jafnaði þar með einvígið í 1:1.

Strax í upphafi leiks var ljóst að heimakonur í Njarðvík hygðust jafna einvígið enda var gífurlegur kraftur í þeim.

Njarðvík náði til að mynda 12:2 forystu eftir tæplega tveggja og hálfrar mínútu leik.

Fjölniskonur vöknuðu þá aðeins til lífsins og minnkuðu muninn niður í fjögur stig, 12:8.

Njarðvíkingar voru hins vegar áfram sterkari og náðu mest níu stiga forystu í fyrsta leikhluta, 25:16, áður en Fjölnir minnkaði muninn.

Staðan því 25:18, að loknum fyrsta leikhluta.

Njarðvík hóf annan leikhluta af viðlíka krafti og þann fyrsta og voru heimakonur komnar 13 stigum yfir þegar tæpar tvær mínútur voru liðnar af honum, 33:20.

Mest náðu Njarðvíkingar 16 stiga forystu í fyrri hálfleiknum, 38:22. Fjölniskonur náðu hins vegar að laga stöðuna nokkuð áður en leikhlutinn var úti og leiddi Njarðvík með níu stigum, 42:33, í leikhléi.

Aliyah Mazyck skoraði 36 stig fyrir Fjölni.
Aliyah Mazyck skoraði 36 stig fyrir Fjölni. mbl.is/Árni Sæberg

Stærstan hluta hálfleiksins gekk Njarðvíkingum vel að loka á Aliyuh Mazyck og Sönju Orozovic og sóknarleikur Fjölniskvenna því í nokkrum ólestri. Orozovic var sérstaklega mikið að reyna skot úr erfiðum stöðum sem geiguðu flest.

Aliyah Collier var þá öflug hjá Njarðvíkingum þrátt fyrir að skotnýtingin hafi ekki verið sem best þar sem hún tók 13 fráköst í fyrri hálfleik.

Njarðvík virtist ætla að byrja þriðja leikhluta á sama hátt enda komst liðið strax 12 stigum yfir, 45:33.

Eftir það tók Fjölnir leikinn alfarið yfir með Mazyck fremsta í flokki þar sem hún setti hér um bil öll skot sín niður.

Fjölnir minnkaði muninn jafnt og þétt á meðan Njarðvík hitti lítið sem ekkert. Fjölniskonur náðu raunar að komast yfir um skamma stund, 49:51.

Við það var sem Njarðvíkingar hafi vaknað af værum blundi og skoruðu sex stig í röð á skömmum tíma. Fjölnir skoraði hins vegar síðustu körfu þriðja leikhlutans og staðan því 55:53 þegar fjórði og síðasti leikhluti var eftir.

Í honum fundu Njarðvíkingar aftur fjölina sem var týnd í þriðja leikhluta og náðu snemma sjö stiga forystu. Heimakonur bættu bara í og náðu fljótlega 12 stiga forystu, 67:55.

Fjölniskonur virtust ekki hafa orku til þess að ná annarri frækinni endurkomu líkt og í þriðja leikhluta og Njarðvíkingar gengu á lagið, náðu mest 15 stiga forystu í fjórða leikhlutanum, 76:61, unnu að lokum öruggan 14 stiga sigur og jöfnuðu þar með einvígið í 1:1.

Stigahæst í liði Njarðvíkur var Collier með 29 stig og endaði hún með 18 fráköst. Þá stal hún boltanum sex sinnum.

Mazyck var þá einu sinni sem áður stigahæst Fjölniskvenna og í leiknum með 36 stig. Þá tók hún tíu fráköst og stal boltanum sex sinnum.

Þrjá sigra þarf til þess að tryggja sér sigur í einvíginu og sæti í úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn. Þriðji leikur liðanna fer fram í Dalhúsum í Grafarvogi á sunnudaginn.

Njarðvík 80:66 Fjölnir opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert