Dómararnir vita ekki hvernig manneskja ég er

Aliyah Mazyck með boltann gegn Njarðvík.
Aliyah Mazyck með boltann gegn Njarðvík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var fram og til baka í kvöld,“ sagði hin bandaríska Aliyah Mazyck í samtali við mbl.is eftir að hún og liðsfélagar hennar í Fjölni féllu úr leik gegn Njarðvík í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfubolta. Njarðvík vann 64:58 í kvöld og einvígið 3:1.

„Ég get ekki kvartað þrátt fyrir tapið. Liðið gerði hvað það gat en við hittum bara ekki nógu vel og fengum ekki vítaskotin sem við áttum að fá. Þetta er búið að vera magnað tímabil, en því miður endar það svona,“ sagði Mazyck en Fjölnir varð deildarmeistari á dögunum.

„Auðvitað erum við svekktar að falla úr leik en heilt yfir er ég nokkuð sátt við tímabilið. Ég og liðsfélagarnir getum borið höfuðið hátt því við gáfum allt sem við áttum,“ sagði hún.

Mikil harka var í leiknum í kvöld og Mazyck er ósátt við meðferðina sem hún fær frá dómurum deildarinnar. Er hún sjálf mjög lífleg á vellinum og segir það hafa áhrif á hvernig dæmt sé á móti sér.  

„Jesús kristur. Ég vissi að ég fengi enga greiða hjá dómurunum, það hefur alltaf verið svoleiðis. Ég fæ aldrei neitt frá þeim og það er stór galli í þessari deild. Ég er með stóran persónuleika á vellinum en dómararnir vita ekki hvernig manneskja ég er og dæma mig út frá ástríðunni sem ég sýni á vellinum,“ sagði Mazyck. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert