Höldum áfram og reynum að ná Íslandsmeistaratitlinum

Vilborg Jónsdóttir með boltann gegn Fjölni.
Vilborg Jónsdóttir með boltann gegn Fjölni. Kristinn Magnússon

Vilborg Jónsdóttir, fyrirliði Njarðvíkur, var kát þegar hún spjallaði við mbl.is eftir 64:58-sigur liðsins á Fjölni í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfubolta í kvöld. Með sigrinum tryggði Njarðvík sér sigur í einvíginu og úrslitaeinvígi gegn Haukum.

Fjölnir vann fyrsta leikinn en Njarðvík svaraði með þremur sigrum í röð. „Við tókum fyrsta leikinn svolítið sem upphitunarleik til að sjá hvað þær ætluðu að gera og gera okkar besta til að gera eitthvað á móti því. Við gerðum það vel og unnum þrjá í röð,“ sagði Vilborg.

Fjölnir byrjaði betur í kvöld en Njarðvík lagði grunninn að sigrinum með góðum þriðja leikhluta, sem liðið vann með 14 stigum. „Við byrjum hægt í sókninni og eigum erfitt með að koma sóknarleiknum af stað en þegar það kemur er vörnin okkar það góð að það er erfitt að stoppa okkur þegar sóknin okkar fer af stað. Um leið og við náðum að koma sókninni í gang þá kom þetta hjá okkur,“ útskýrði Vilborg.

Lægðin búin og áfram gakk

Njarðvík afrekar það að vera nýliði í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn. Því eru ekki margir leikmenn liðsins sem hafa leikið leiki af þessari stærðargráðu. Vilborg viðurkennir að örlítið stress hafi myndast undir lokin þegar Fjölnir var að minnka muninn.  

„Maður er svolítið inn í leiknum bara en auðvitað kemur stressið en það er gott að hafa smá stress. Þetta fer allt í reynslubankann og við höldum áfram og reynum að ná Íslandsmeistaratitlinum.“

Njarðvík tapaði fimm af síðustu sex leikjum sínum í öllum keppnum fyrir úrslitakeppnina en vinnur nú þrjá leiki í röð gegn deildarmeisturunum sjálfum í undanúrslitum.

„Það fóru öll liðin í gegnum einhvers konar lægð þar sem þau töpuðu 5-6 leikjum í röð. Okkar kom á ömurlegum tíma, í enda tímabilsins. Núna erum við að sýna það að við höfum komið okkur úr lægðinni og nú er það áfram gakk,“ sagði fyrirliðin.

Hún er spennt að mæta bikarmeisturum Hauka í úrslitaeinvíginu. „Okkur hefur gengið ágætlega á móti þeim í vetur, þótt það hafi ekki endað vel í bikarnum. Mér finnst við eiga fína möguleika á móti þeim í úrslitum,“ sagði Vilborg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert