Næsti heimaleikur Íslands spilaður í Hollandi?

Líflegir áhorfendur fylltu Ólafssal á Ásvöllum í febrúar og fengu …
Líflegir áhorfendur fylltu Ólafssal á Ásvöllum í febrúar og fengu háspennuleik þegar Ísland vann Ítalíu eftir tvíframlengdan leik. mbl.is/Árni Sæberg

Hannes Sigurbjörn Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, segist ekki reikna með því að sambandið fái undanþágu frá Alþjóða körfuknattleikssambandinu til að spila næsta heimaleik í undankeppni HM karla hérlendis.

Ekki þarf líklega að rekja málið í löngu máli en ekkert íþróttahús á Íslandi uppfyllir þau skilyrði sem alþjóðasamböndin í körfuknattleik og handknattleik setja fyrir leiki í undankeppnum stórmóta. Þar kemur ýmislegt til eins og öryggismál, aðstaða fyrir sjónvarpsútsendingar og fleira. 

Laugardalshöllin hefur fengið undanþágu á síðustu árum í báðum íþróttagreinum en nú nýtur hennar ekki við þar sem þar er unnið að viðgerðum eftir vatnsleka. 

Fyrir áramót átti Ísland að leika heimaleik gegn Rússlandi. Var óskað eftir því að leika í Ólafssal á Ásvöllum en alþjóðasambandið hafnaði því. Þar af leiðandi fór leikurinn fram í Rússlandi en Rússar áttu þá að koma hingað í sumar í staðinn. Ekki er víst að af þeim leik verði vegna innrásar Rússa í Úkraínu. En Hollendingar eiga einnig eftir að koma til Íslands en Ísland vann fyrri leik þjóðanna í Hollandi naumlega. 

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Hannes S. Jónsson fylgjast …
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Hannes S. Jónsson fylgjast með körfuboltaleik. mbl.is/Hari

Í janúar sótti KKÍ um undanþágu til að spila heimaleik gegn Ítalíu á Ásvöllum í febrúar. Hannes tjáði mbl.is að sú undanþága hafi verið samþykkt vegna þess að í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar hafi verið kveðið á um að reisa ætti nýtt íþróttahús á Íslandi sem stenst alþjóðlegar kröfur. 

Óskar eftir áframhaldandi undanþágu um mánaðamótin

Hannes segir KKÍ þurfa að sækja um undanþágu sérstaklega fyrir næsta leik gegn Hollandi en sýna þurfi fram á að einhver skriður sé á málinu varðandi nýtt íþróttahús/þjóðarleikvang.  

„Undanþágan fyrir Laugardalshöllina er til staðar og við hefðum getað spilað þar gegn Hollandi en hún verður ekki tilbúin. Í janúar vorum við í góðu sambandi við ráðherra og gátum sagt alþjóðasambandinu (FIBA)  frá því að gert væri ráð fyrir því í stjórnarsáttmálanum að reisa nýjan þjóðarleikvang. En alþjóðasambandið tók skýrt fram að til þess að fá undanþágu fyrir Ásvelli, ofan á undanþágu fyrir Laugardalshöllina, þá þyrftum við að sýna fram á að til stæði að byggja nýja höll. Hjá FIBA vilja menn fá svör núna í vor um að eitthvað sé að gerast í málinu. Við töluðum um að vera í sambandi um mánaðamótin apríl/maí. Þá þurfum við að skila inn óskum um hvar við spilum gegn Hollandi.

Þá munum við leggja til að spila á Ásvöllum og ég býst ekki við því að ég geti boðið upp á sömu svör og í janúar, þ.e. að nýtt hús sé á teikniborðinu samkvæmt ríkisstjórninni. Ég á því ekki von á því að FIBA muni gefa okkur undanþágu til að spila gegn Hollandi á Ásvöllum. Þau vilja sjá að eitthvað hafi gerst í þessu síðan í janúar. Ef ekki koma skýr svör frá yfirvöldum þá er raunveruleg hætta á því að næsti heimaleikur okkar verði spilaður annars staðar en á Íslandi,“ sagði Hannes en eftir útisigur gegn Hollandi og magnaðan sigur gegn Ítalíu er Ísland í betri stöðu í undankeppninni en búist hafði verið við fyrirfram. 

Óvíst er hvort íslenskir stuðningsmenn geti fengið að sjá Martin …
Óvíst er hvort íslenskir stuðningsmenn geti fengið að sjá Martin Hermannsson leika listir sínar gegn Hollandi í júlí. mbl.is/Árni Sæberg

Ef FIBA meinar Íslandi að leika gegn Hollandi á Ásvöllum hinn 1. júlí hvað ætlar Hannes þá til bragðs að taka? Mun hann biðja um gott veður hjá nágrannaþjóðum eins og Dönum eða Svíum til að komast inn í gott íþróttahús og mæta þar Hollendingum? 

„Ég er ekki kominn svo langt en mjög líklega verður þetta til þess að Hollendingar fái annan heimaleik á móti okkur sem þeir munu glaðir taka. Mér finnst líklegt að FIBA muni skipa okkur að fara aftur til Hollands. Fyrir áramót skiptum við á heimaleikjum við Rússa og það var í raun ákveðið af FIBA. Ég reikna með að FIBA muni ræða þetta við Hollendinga um að þeir taki leikinn að sér,“ sagði Hannes í samtali við mbl.is í dag. 

Spurður um leikinn við Rússa þá segist Hannes ekki búast við því að Rússar fái að spila meira í keppninni en það muni skýrast í næsta mánuði. KKÍ hefur gefið það út opinberlega að Íslandi muni ekki mæta Rússum í júlí að óbreyttu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert