Sneru blaðinu við með sannfærandi sigri

Njarðvíkingurinn Lavina Joao Gomes reynir að komast framhjá Helenu Sverrisdóttur …
Njarðvíkingurinn Lavina Joao Gomes reynir að komast framhjá Helenu Sverrisdóttur í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Haukakonur sneru blaðinu við í öðrum úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfuknattleik í kvöld þegar þær unnu sannfærandi sigur á Njarðvíkingum í Ljónagryfjunni í Njarðvík, 82:62.

Staðan í einvíginu er því 1:1 og Haukar hafa aftur náðu undirtökunum en þriðji leikur liðanna fer fram á heimavelli þeirra á mánudagskvöldið.

Búist var við hörkuviðureign.  Í það stefndi einmitt á upphafsmínútum leiksins og rúmlega það en þegar líða tók á komu Haukakonur sér þægilega fyrir og að lokum keyrðu þær yfir hugmyndasnauða Njarðvíkinga með glæsibrag.

82:62 lokatölur kvöldsins segja kannski lítið um heildarmyndina af leiknum. Haukar voru vissulega töluvert sterkari á svellinu þetta kvöldið en Njarðvík voru vissulega innan seilingar megnið af kvöldinu.  Hinsvegar gerðu þær grænu aldrei neina almennilega atlögu að sigri í kvöld og töluvert vantaði uppá ákefðina og kraftinn sem þær sýndu í fyrsta leiknum.  Átti það við á báðum endum vallarins.

Haukakonur hinsvegar mættu tilbúnar til leiks og með það í huganum að þær myndu alls ekki vilja lenda 2:0 undir í einvíginu. Bjarni Magnússon þjálfari liðsins gerði ákveðnar taktískar breytingar á sóknarleik sínum og byrjunarliði. Bríet Hinriksdóttir sem reyndar á ættir að rekja til Njarðvíkur þakkaði pent fyrir byrjunarliðssætið í kvöld og spilaði vel.

Miklu munaði svo um Haiden Palmer sem í fyrsta leiknum var algerlega týnd en fann fjöl sína að nýju í Ljónagryfjunni. 

Hjá Njarðvík var fátt um fína drætti þetta kvöldið. Allyah Collier sem var nánast óstöðvandi í fyrsta leiknum virkaði þreytuleg í öllum sínum aðgerðum og þrátt fyrir 21 stig frá henni þurfti liðið líkast til meira.  Einvígið heldur nú aftur til Hafnarfjarðar þar sem að liðin leika í Ólafssal á mánudag. 

Gangur leiksins:: 0:9, 12:11, 12:16, 16:18, 22:23, 24:29, 30:35, 32:42, 32:49, 35:51, 39:55, 44:58, 50:64, 55:69, 61:75, 62:82.

Njarðvík: Aliyah A'taeya Collier 21/13 fráköst/5 stoðsendingar/6 stolnir, Lavína Joao Gomes De Silva 15/4 fráköst, Kamilla Sól Viktorsdóttir 10, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 7, Vilborg Jonsdottir 4, Diane Diéné Oumou 3/13 fráköst, Helena Rafnsdóttir 1, Þuríður Birna Björnsdóttir Debes 1.

Fráköst: 27 í vörn, 9 í sókn.

Haukar: Haiden Denise Palmer 22/8 fráköst/5 stolnir, Lovísa Björt Henningsdóttir 14, Bríet Sif Hinriksdóttir 12/4 fráköst, Helena Sverrisdóttir 10/8 fráköst/5 stoðsendingar, Jana Falsdóttir 9, Eva Margrét Kristjánsdóttir 7/10 fráköst, Elísabeth Ýr Ægisdóttir 6/6 fráköst, Tinna Guðrún Alexandersdóttir 2.

Fráköst: 32 í vörn, 8 í sókn.

Dómarar: Ísak Ernir Kristinsson, Jakob Árni Ísleifsson, Johann Gudmundsson.

Áhorfendur: 275



Njarðvík 61:82 Haukar opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert