Njarðvík einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum

Aliyah Collier í baráttu við Elísabeth Ýr Ægisdóttur í kvöld.
Aliyah Collier í baráttu við Elísabeth Ýr Ægisdóttur í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Njarðvík vann frækinn 78:69-sigur á Haukum þegar liðin mættust í þriðja leiknum í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í körfuknattleik kvenna í Ólafssal á Ásvöllum í kvöld. Njarðvík er þar með komið í 2:1-forystu í einvíginu og þarf aðeins einn sigur til viðbótar til þess að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

Gífurlegt jafnræði var með liðunum til að byrja með. Skiptust þau á að ná naumri forystu í fyrsta leikhluta og leiddu Haukar með minnsta mun að honum loknum, 18:19.

Í öðrum leikhluta byrjuðu Haukar betur og náðu fimm stiga forystu, 24:29. Eftir að hafa komist í 26:31 um hann miðjan tóku Njarðvíkingar hins vegar vel við sér þar sem Lavína de Silva og Aliyah Collier settu niður tvær þriggja stiga körfur með stuttu millibili og komu Njarðvík þar með yfir, 32:31.

Frábær lokakafli gestanna þýddi svo að þeir leiddu með fimm stigum í fyrsta skipti í leiknum, 40:35,  þegar fyrri hálfleikur var úti.

Njarðvík hóf síðari hálfleikinn vel og komst strax sjö stigum yfir, 42:35.

Haukar unnu sig aftur á móti vel inn í leikinn að nýju og náðu forystunni, 49:50, í skamma stund seint í þriðja leikhluta.

Þá settu gestirnir aftur á móti í fluggír, skoruðu 12 stig í röð og voru komnir með frábæra 11 stiga forystu þegar þriðji leikhlutinn var úti, 61:50.

Njarðvík hóf fjórða og síðasta leikhlutann á því að komast í 13 stiga forystu í fyrsta skipti í leiknum, 63:50, og útlitið gott.

Gestirnir skoruðu hins vegar ekkert í tæpar fimm mínútur í kjölfarið á meðan Haukar minnkuðu muninn jafnt og þétt. Haukar náðu að minnka muninn niður í þrjú stig, 63:60, en nær komust heimakonur  þó ekki það sem eftir lifði leiks.

Eftir að Njarðvík tók leikhlé um miðjan fjórða leikhluta fundu gestirnir aftur fjölina svo um munaði og unnu að lokum góðan og sanngjarnan níu stiga sigur.

Collier átti stórkostlegan leik fyrir Njarðvík, en hún skoraði 38 stig, tók 19 fráköst, gaf fjórar stoðsendingar, stal boltanum þrisvar og blokkaði þrjú skot.

De Silva lék sömuleiðis vel í liði Njarðvíkur er hún skoraði 17 stig og tók sjö fráköst.

Stigahæst í liði Hauka var Helena Sverrisdóttir með 19 stig.

Fyrsti titillinn í áratug?

Magnaður lokakafli Njarðvíkinga í þriðja leikhluta reyndist vendipunkturinn í leiknum þar sem munurinn var skyndilega orðinn 11 stig, enda reyndist það Haukum um megn að koma til baka eftir það.

Auk þess má sjá bersýnilega af tölunum hjá Collier að Haukar réðu ekkert við hana.

Allir þrír sigrarnir í einvíginu hafa verið útisigrar og því verður fróðlegt að sjá hvort fjórði útisigurinn komi í Njarðvík í næsta leik eða hvort Njarðvík vinni sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil síðan árið 2012, fyrir sléttum áratug síðan.

Gangur leiksins:: 5:7, 13:12, 17:15, 19:18, 25:22, 29:26, 33:32, 35:40, 38:42, 44:45, 50:51, 50:61, 54:63, 58:63, 60:65, 69:78.

Haukar: Helena Sverrisdóttir 19/5 fráköst/6 stoðsendingar, Bríet Sif Hinriksdóttir 12, Haiden Denise Palmer 10, Tinna Guðrún Alexandersdóttir 9, Eva Margrét Kristjánsdóttir 8/5 fráköst, Lovísa Björt Henningsdóttir 5/8 fráköst, Elísabeth Ýr Ægisdóttir 4, Sólrún Inga Gísladóttir 2.

Fráköst: 21 í vörn, 4 í sókn.

Njarðvík: Aliyah A'taeya Collier 38/20 fráköst/3 varin skot, Lavína Joao Gomes De Silva 17/7 fráköst, Vilborg Jonsdottir 8/4 fráköst, Kamilla Sól Viktorsdóttir 6, Helena Rafnsdóttir 4, Diane Diéné Oumou 3/5 fráköst, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 2.

Fráköst: 24 í vörn, 17 í sókn.

Dómarar: Davíð Tómas Tómasson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Johann Gudmundsson.

Áhorfendur: 536

Haukar 69:78 Njarðvík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert