Haukar knúðu fram oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn

Njarðvíkingurinn Aliyah Collier í baráttu við Haukakonurnar Elísabet Ýr Ægisdóttur …
Njarðvíkingurinn Aliyah Collier í baráttu við Haukakonurnar Elísabet Ýr Ægisdóttur og Evu Margréti Kristjánsdóttur Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Haukar knúðu fram oddaleik gegn Njarðvík í úrslitaeinvígi liðanna á Íslandsmóti kvenna í körfubolta með 60:51-sigri í fjórða leik í Njarðvík í kvöld. Oddaleikurinn fer fram á Ásvöllum sunnudaginn 1. maí.

Báðum liðum gekk frekar illa að skora í fyrsta leikhluta og virtist skjálfti í liðunum. Haukum tókst þó aðeins betur til, aðallega því Eva Margrét Kristjánsdóttir var að spila vel. Að lokum munaði sex stigum á liðunum eftir leikhlutann, 14:8.

Annar leikhluti var betur leikinn af báðum liðum. Hraðinn var meiri og liðin hittu betur. Aliyah Collier datt í gang í hálfleiknum og með hana í banastuði tókst Njarðvík að jafna í 29:29 og svo komast yfir, 32:29. Haukar skoruðu hinsvegar þrjú síðustu stigin í leikhlutanum og var staðan hnífjöfn í hálfleik, 32:32.

Haukar byrjuðu betur í seinni hálfleik af gríðarlegum krafti og unnu fyrstu átta mínútur þriðja leikhluta 14:2. Haukum gekk vel að búa sér til góð færi í sókninni og gerðu vel í að þvinga Njarðvík í erfiða hluti hinum megin. Haukar unnu leikhlutann að lokum 17:5 og var staðan 49:37, Haukum í vil fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.

Haukakonur komust 15 stigum yfir snemma í fjórða leikhluta, 54:39. Njarðvík gekk illa að saxa almennilega á það forskot framan af í leikhlutanum og var staðan 56:44 þegar fjórar mínútur voru eftir.

Þá kom góður kafli hjá Njarðvík sem minnkaði muninn í fjögur stig þegar tvær mínútur voru eftir, 56:50. Nær komst Njarðvík hinsvegar ekki og úrslitin í einvíginu ráðast í oddaleik á sunnudag.

Gangur leiksins:: 2:6, 4:6, 8:14, 8:14, 15:18, 22:25, 27:29, 32:32, 32:35, 34:37, 34:46, 37:49, 41:54, 43:56, 46:56, 51:60.

Njarðvík: Aliyah A'taeya Collier 27/20 fráköst, Lavína Joao Gomes De Silva 8/8 fráköst, Helena Rafnsdóttir 6, Kamilla Sól Viktorsdóttir 5, Diane Diéné Oumou 5/4 fráköst.

Fráköst: 24 í vörn, 11 í sókn.

Haukar: Eva Margrét Kristjánsdóttir 15/7 fráköst, Bríet Sif Hinriksdóttir 11/5 fráköst/5 stolnir, Haiden Denise Palmer 10/5 fráköst, Helena Sverrisdóttir 7/9 fráköst, Sólrún Inga Gísladóttir 5, Tinna Guðrún Alexandersdóttir 5, Lovísa Björt Henningsdóttir 3, Elísabeth Ýr Ægisdóttir 2, Jana Falsdóttir 2.

Fráköst: 22 í vörn, 10 í sókn.

Dómarar: Ísak Ernir Kristinsson, Aðalsteinn Hjartarson, Eggert Þór Aðalsteinsson.

Áhorfendur: 600

Njarðvík 51:60 Haukar opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert