Körfuboltakona í skiptum fyrir vopnasala?

Brittney Griner er enn í haldi rússneskra yfirvalda.
Brittney Griner er enn í haldi rússneskra yfirvalda. AFP/Thomas Coex

Bandaríska körfuknattleikskonan Brittney Griner, sem hefur í tvígang orðið heimsmeistari og í tvígang Ólympíumeistari með landsliði Bandaríkjanna, er enn í haldi rússneskra yfirvalda vegna gruns um eiturlyfjasmygl.

Bandarísk stjórnvöld eru ósátt við handtöku Rússa á Griner og telja hana ólögmæta. Tass greinir frá í dag að stjórnvöld vestanhafs séu reiðubúin að framselja rússneska vopnasalann Viktor Bout í skiptum fyrir Griner.

Bout var handtekinn í Bangkok í Taílandi árið 2008, grunaður um áætlanir um að selja vopn hryðjuverkamanna. Var hann í kjölfarið framseldur til Bandaríkjanna. 

Griner er ein besta körfuknattleikskona Bandaríkjanna en hún hefur verið í haldi Rússa frá 17. febrúar. Fyrir handtökuna lék hún með Jekaterínbúrg í Rússlandi. Var hún handtekin á flugvelli í Moskvu á heimleið til Bandaríkjanna. 

Samkvæmt rússneskum yfirvöldum var Griner með kannabisvökva í rafsígarettu í farangri sínum. Hún gæti átt yfir höfði sér tíu ára fangelsisvist í Rússlandi, verði hún ekki framseld til Bandaríkjanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert