Ekki fór mikið fyrir sakleysislegri frétt vorið 2020 þess efnis að Þór Þorlákshöfn hefði tryggt sér krafta Bretans Callums Lawson.
Lawson hafði komið til Keflavíkur um áramót en ekki tókst að ljúka Íslandsmótinu í körfuknattleik vorið 2020 vegna heimsfaraldursins.
Það tímabil rann út í sandinn en í fyrra varð Lawson Íslandsmeistari með Þór og nú Íslandsmeistari með Val ári síðar. Þeir eru ekki margir erlendu leikmennirnir sem orðið hafa Íslandsmeistarar tvö ár í röð með sitt hvoru liðinu.
„Já ég hef verið einstaklega lánssamur. Ég hef verið í góðum liðum sem hafa fundið taktinn á réttum tíma og hef leikið með mjög góðum leikmönnum á Íslandi,“ sagði Callum Lawson sem skoraði 10 stig í oddaleiknum í kvöld.
„Þetta er magnað og mikil upplifun að standa uppi sem sigurvegari eftir úrslitarimmu eins og þessa. Ég verð að hrósa Tindastóli fyrir þeirra frammistöðu því Tindastóll er frábært lið,“ sagði Lawson þegar mbl.is greip hann í fagnaðarlátunum á Hlíðarenda í kvöld.
Er munur á því að verða Íslandsmeistari með Val eða Þór Þ.?
„Þetta er aðeins frábrugðið því sem var í fyrra. Þá voru meiri sveiflur meðal annars út af kórónuveirunni og þess háttar. Núna var meiri slagur og við sýndum að við höfðum löngunina þegar það skipti mestu máli. Ég er stoltur af þessu Valsliði.“
Spurður um hvort það hafi verið erfið ákvörðun að yfirgefa meistaraliðið í Þorlákshöfn og ganga í raðir Vals sagði Lawson svo ekki vera.
„Nei. Þegar maður horfði á reynsluna í leikmannahópnum og reynslu þjálfarans að þá var það „no brainer“.