Körfuknattleikskonan Isabella Ósk Sigurðardóttir er gengin til liðs við ástralska liðið South Adelaide Panthers.
Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag en Ísabella kemur til félagsins frá uppeldisfélagi sínu Breiðabliki.
Isabella, sem er 24 ára gömul, skoraði 14 stig að meðaltali í 17 leikjum með Breiðabliki á síðustu leiktíð, ásamt því að taka 14 fráköst og gefa tvær stoðsendingar en liðið hafnaði í sjöunda og næstneðsta sæti deildarinnar með 12 stig.
South Adelaide Panthers leikur í næstefstu deild Ástralíu, NBL1-Central riðlinum og er liðið í öðru sæti riðilsins eftir sjö umferðir en alls eru fimm landshlutariðlar í B-deildinni þar í landi.