Körfuknattleikskonan Elín Sóley Hrafnkelsdóttir er komin til Vals á nýjan leik eftir fjögurra ára fjarveru og skrifaði í dag undir tveggja ára samning við félagið.
Elín Sóley er 23 ára framherji og hefur undanfarin fjögur ár spilað í háskólaboltanum í Bandaríkjunum með liði Tulsa-háskóla. Þar áður lék hún tvö tímabil með Val og skilaði á síðasta tímabili sínu með liðinu að meðaltali 10,9 stigum, 7,2 fráköstum og 13,9 framlagsstigum.
Elín Sóley lék með Breiðabliki í yngri flokkunum en skipti 17 ára gömul í Val. Hún á að baki 7 leiki með A-landsliði Íslands og lék með öllum yngri landsliðunum.