Landsliðskona til Íslandsmeistaranna

Bríet Sif Hinriksdóttir við undirskriftina.
Bríet Sif Hinriksdóttir við undirskriftina. Ljósmynd/Njarðvík

Körfuknattleikskonan Bríet Sif Hinriksdóttir hefur skipt úr Haukum og í Njarðvík. Hún mun því leika með Íslandsmeisturunum á komandi tímabili.

Bríet, sem er frá Keflavík, skoraði 10 stig, tók þrjú fráköst og gaf tvær stoðsendingar að meðaltali í leik með Haukum á síðustu leiktíð. Haukar og Njarðvík mættust einmitt í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn og vann Njarðvík eftir oddaleik.

Í samtali við heimasíðu Njarðvíkur viðurkennir Bríet að það hafi verið eilítið erfitt að semja við Njarðvík, verandi uppalin hjá Keflavík.

„Mér fannst það alveg smá erfitt. Ég var alltaf að hugsa hvað hefði 10 ára Bríet sagt? Hún hefði bara ranghvolft augunum og sagt hvað ertu að hugsa? Svo þroskast maður bara og reynir að sjá þetta í víðara samhengi,” er haft eftir henni.

Bríet hefur verið í landsliðshópi Íslands á síðustu árum, eins og tvíburasystir hennar Sara Rún Hinriksdóttir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert