Ari Gunnarsson hefur komist að samkomulagi við körfuknattleiksdeild ÍR um að þjálfa kvennalið félagsins næstu tvö tímabil.
ÍR leikur sem nýliði í efstu deild kvenna á næsta tímabili eftir að hafa haft betur gegn B-deildarmeisturum Ármanns í úrslitaeinvígi um laust sæti í deildinni á nýafstöðnu tímabili.
Kristjana Eir Jónsdóttir stýrði liðinu upp um deild en hún tók við deildarmeisturum Fjölnis á dögunum.
Því var ÍR í leit að þjálfara og í hádeginu í gær skrifaði Ari undir tveggja ára samning.
„Við erum gríðarlega ánægð með að fá Ara til starfa til okkar og hjálpa okkur að festa liðið í sessi í Subway deild kvenna, það er ekki spurning að reynsla hans mun hjálpa félaginu, bæði við að efla innviðina í félaginu og að hjálpa okkur að taka næsta skref í baráttunni í Subway deildinni á næsta tímabili“ sagði Steinar Þór Guðjónsson, formaður körfuknattleiksdeildar ÍR, í tilkynningu frá deildinni.
„Ari býr yfir mikilli reynslu og hefur þjálfað víða m.a. lið Hamars, KR, Skallagríms, Vals og Hauka í efstu deild kvenna.
Í kjölfar undirritunar samnings í dag lét Ari hafa eftir sér að hann sé spenntur að taka fram þjálfaraspjaldið og taka þátt í því ævintýri sem nýtt íþróttahús félagsins í Mjóddinni mun bjóða upp á á næsta tímabili,“ sagði aukinheldur í tilkynningunni.