Treyja númer 6 sem Bill Russell bar á sínum tíma mun vera hengd upp í rjáfur í NBA körfuboltadeildinni til heiðurs hans.
Bill Russell er goðsögn í körfuboltasamfélaginu og í NBA deildinni var hann sigursælasti leikmaður í sögu hennar. Hann vann deildina 11 sinnum og var valinn mikilvægasti leikmaður hennar fimm sinnum á 13 ára ferli hans og var fyrirliði Bandaríkjanna er landið vann Ólympíugull árið 1956. Hann féll frá 88 ára gamall í síðasta mánuði eftir að hafa glímt við veikindi.
Hann lék með Boston Celtics og var númer hans sett upp í rjáfur hjá félaginu þegar hann hætti að spila. Hann var fyrsti leikmaður sem fær númer sitt upp í rjáfur í allri deildinni.
Hann var tekinn inn í frægðarhöll NBA sem leikmaður 1975 og síðar sem þjálfari 2021 en hann var fyrsti þeldökki þjálfari NBA deildarinnar og hafði mikil áhrif og verður einnig minnst sem brautryðjandi í jafnréttismálum.
Hann er aðeins þriðji leikmaðurinn sem fær þennan heiður í stærstu íþróttadeildum Bandaríkjanna en treyja hafnarboltamannsins Jackie Robinson númer 42 var hengd upp í rjáfur 1997 og Wayne Gretzky íshokkímaðurinn fékk töluna sína 99 þangað einnig árið 2000.
Leikmenn deildarinnar sem bera númerið núþegar, líkt og LeBron James mega halda áfram að nota númerið en það verður ekki gefið til nýrra leikmanna.
Bill Russell verður minnst á körfuboltaleiktíðinni 2022/23 með minnigarmerki á hægri erminni á treyjum liðana og allir NBA vellir munu vera með númer 6 í smáralaga merki á hliðarlínunni.