Karlaliði Fjölnis í körfuknattleik hefur borist mikill liðstyrkur en fyrir helgi tilkynnti félagið að Svíinn Simon Francis sé búinn að semja um að leika með liðinu á komandi tímabili.
Francis er 27 ára gamall framherji, 201 sentimetri á hæð og með víðtæka reynslu.
Kemur hann í stað Marko Andrijanic sem samdi við Fjölni í lok júlímánaðar áður en samningnum var rift á dögunum.
Francis hefur leikið í bandaríska háskólaboltanum en lék síðast með 360 Financial Killorglin í írsku úrvalsdeildinni þar sem hann var með 24,2 stig og 8,5 fráköst að meðaltali í leik.
„Við erum spennt að fá Simon til liðs við okkur á komandi tímabil[i] og fullviss um að hann [eigi] eftir að hjálpa liðinu verulega. Við bjóðum hann velkominn í Grafarvoginn,“ sagði í tilkynningu frá körfuknattleiksdeild Fjölnis.
Fjölnir leikur í 1. deild karla á komandi tímabili líkt og undanfarin ár.