Gunnar á förum frá Stjörnunni

Gunnar Ólafsson á síðustu leiktíð með Stjörnunni.
Gunnar Ólafsson á síðustu leiktíð með Stjörnunni. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Körfuboltamaðurinn Gunnar Ólafsson gengur til liðs við sænska félagið Fryshuset Basket fyrir komandi tímabil.

Gunnar hefur spilað með Stjörnunni frá 2019 og skilaði þar 7 stigum, 4 fráköstum og 2 stoðsendingum að meðaltali á síðasta tímabili en hann er á förum þaðan í sænska úrvalsdeildarliðið Fryshuset Basket. Hann staðfesti þetta í samtali við Mbl.

Stjarnan endaði í 6. sæti á síðasta tímabili en datt út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar af Val sem enduðu á að vinna Íslandsmeistaratitilinn en Stjarnan vann bikarmeistaratitilinn á tímabilinu.

Fryshuset, sem er frá Stokkhólmi, hafnaði í neðsta sæti af níu liðum í sænsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og tapaði öllum 32 leikjum sínum en leikur samt áfram í deildinni á næsta tímabili þar sem liðum var fjölgað úr níu í ellefu.

Gunnar hefur einnig leikið með íslenska landsliðinu en hann hefur spilað 25 landsleiki síðan árið 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert