Bandaríkjamaðurinn Keyshawn Woods er genginn til liðs við karlalið Tindastóls í körfuknattleik og mun hann leika með liðinu á komandi keppnistímabili í úrvalsdeild karla, Subway-deildinni.
Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum í kvöld en Woods, sem er 26 ára gamall, hefur meðal annars leikið í efstu deildum Hollands, Póllands og Grikklands á ferlinum.
„Keyshawn þykir mjög öflugur varnarmaður og góð skytta,“ segir meðal annars í tilkynningu Tindastóls en Woods lék síðast í Grikklandi.
Tindastóll hafnaði í fjórða sæti deildarkeppninnar á síðustu leiktíð og fór alla leið í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins þar sem liðið tapaði fyrir Valsmönnum 2:3 í frábæru einvígi.