Pavel ekki með Íslandsmeisturunum á næsta tímabili

Pavel Ermolinski smellir kossi á Íslandsmeistarabikarinn í maí síðastliðnum.
Pavel Ermolinski smellir kossi á Íslandsmeistarabikarinn í maí síðastliðnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Körfuknattleiksmaðurinn Pavel Ermolinski hefur tilkynnt það formlega að hann muni ekki leika með Íslandsmeisturum Vals á næsta tímabili.

Í skilaboðum til stuðningsmanna Vals í gær staðfesti Pavel að hann yrði ekki áfram á Hlíðarenda og kvaðst hann jafnframt ekki vita hvað taki við hjá honum í framhaldinu.

Vangaveltur höfðu verið uppi um framtíð Pavels og hafði þjálfari Vals, Finnur Freyr Stefánsson, til að mynda látið hafa það eftir sér fyrr í sumar að hann reiknaði ekki með því að hann yrði áfram hjá Val.

Í skilaboðunum þakkar Pavel Valsmönnum fyrir árin þrjú sem hann lék með liðinu, sem endaði sem áður segir með fræknum Íslandsmeistaratitli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert