Stórkostlegur íslenskur sigur

Ísland er enn með í baráttunni um sæti í lokakeppni HM karla í körfuknattleik af fullum krafti eftir stórkostlegan sigur á Úkraínu 91:88 í undankeppninni eftir framlengdan spennutrylli í Ólafssal á Ásvöllum.

Þriðji sigurinn í keppninni í Ólafssal og sá heimavöllurinn hefur heldur betur reynst vel. Engu líkara er en að Ólafur heitinn Rafnsson fyrrverandi forseti ÍSÍ og KKÍ sé einhvers staðar og hjálpi til. Í það minnsta hefur Ísland unnið þrjá þvílíka spennuleiki sem hefðu allt eins getað farið á annan veg. 

Leikurinn var æsispennandi rétt eins og heimaleikirnir gegn Ítalíu og Hollandi. Leikurinn gegn Ítalíu var tvíframlengdur og aftur þurfti að framlengja í kvöld. Úkraínumennirnir voru miklu sterkari í fyrsta leikhluta og náðu þá tólf stiga forskoti. Með góðri baráttu tókst Íslandi að saxa á forskotið fyrir hlé og að loknum fyrri hálfleik munaði fimm stigum á liðunum. 

Í þriðja leikhluta kviknaði neisti fyrir alvöru hjá íslenska liðinu. Þá komu fimm þristar og þar af þrír frá Sigtryggi Arnari Björnssyni. Ísland náði ellefu stiga forskoti en það fór fljótt. Úkraína jafnaði þegar um fimm mínútur voru eftir. Leikurinn var í járnum sem eftir lifði. 

Þegar leið á framlenginguna hafði Ísland betur með hörkuvörn og Kristófer Acox og Elvar Már Friðriksson voru á þeim kafla með 100% nýtingu á vítalínunni. Það reyndist geysilega mikilvægt og ekki sjálfgefið þegar spennan er mikil. 

Ísland var fyrir leikinn í fjórða sæti L-riðils með átta stig, einu stigi frá þremur efstu sætunum. Úkraína er í fimmta sæti með sex stig. Þrjú efstu liðin fara í lokakeppni HM 2023 en næst verður leikið í nóvember og því næst í febrúar. Eftir sex leiki hafa Spánn og Ítalía unnið fimm leiki af sex. Ísland er í þriðja sæti með fjóra sigra. Georgía hefur unnið þrjá, Úkraína einn og Holland engan. Segja má að vonir Úkraínumanna séu orðnar litlar eftir tap á Íslandi í kvöld. 

Stig Íslands: Elvar 27 stig, Kristófer 14, Sigryggur Arnar 13, Haukur Helgi Pálsson 10, Tryggvi Snær Hlinason 10, Jón Axel Guðmundsson 8 stig, Styrmir Þrastarson 5 stig, Ægir
Þór Steinarsson 4. 

Lykilatriði hve margir lögðu í púkkið

Eins og áður segir þá geta spennuleikir eins og þessir farið á hvorn veginn sem er. En íslenska liðinu tekst betur að vinna úr hlutunum í þeim aðstæðum en oft áður. Það hefur sýnt sig í síðustu leikjum. Fjórir jafnir leikir hafa unnist í keppninni, þrír heima og einn úti gegn Hollandi. Fyrir nokkrum árum síðan tapaði Ísland mörgum jöfnum leikjum. Fyrir vikið var liðið komið í forkeppni um tíma en menn hafa heldur betur unnið vel úr þeirri stöðu. Hvort sem íslenska liðinu tekst að komast á HM eða ekki þá er í það minnsta ljóst að liðið getur barist um að komast á næsta EM. 

Í íslenska liðinu eru margir leikmenn sem eru mjög öflugir í stöðunni maður á móti manni í sókninni. Ég hef skrifað um þetta áður og ekki að ástæðulausu. Þegar Elvar Már, Ægir Þór eða Sigtryggur Arnar spóla framhjá andstæðingunum þá kemst hreyfing á vörn andstæðinganna. Þeir geta líka unnið vel úr því þegar þeir nálgast körfuna og sama má segja um Jón Axel sem spilaði tæpur í kvöld. 

Þegar við eigum leikmenn sem geta skapað usla með þessum hætti þá er kannski aðeins auðveldara að búa til skotfæri í erfiðum og spennandi leikjum. Tryggvi Snær hefur auðvitað verið geysilega sterkur fyrir íslenska liðið en Ísland vann ekki í kvöld út af stórleik hjá Tryggva. Hann átti ekki slæman dag en nú var bara sú staða einfaldlega uppi að andstæðingarnir voru með tvo leikmenn sem eru hærri en Tryggvi. Í framlengingunni kom landsliðsþjálfarinn Craig Pedersen andstæðingunum líklega á óvart þegar hann notaði lágvaxið lið og geymdi þá Tryggva á bekknum.

Lykillinn að sigrinum í kvöld var hversu margir leikmenn náðu að leggja gott til málanna. Öðruvísi hefði þetta ekki verið hægt því Úkraína er með sterkara lið en Ísland. Þeir voru með alla sína menn og eru á leið í lokakeppni EM eftir nokkra daga. Þar af voru tveir NBA-leikmenn og við Íslendingar erum án Martins Hermannssonar sem hefur náð lengst í atvinnumennskunni af þeim sem nú eru í landsliðinu. 

Liðið bætti sig mjög í vörninni eftir því sem leið á. Ákefðin og baráttan var orðin mjög mikil þegar menn sáu möguleika á sigri. Þá kemur snerpan einnig til skjalanna. NBA-leikmaðurinn Mykhailiuk var til dæmis mjög hættuleg skytta og skoraði 19 stig. Undir lokin náðu samherjarnir einfaldlega ekki að koma boltanum til hans þegar þeir ætluðu sér það vegna þess að Ægir er svo snöggur að hann þvældist alltaf fyrir. Kristófer var snöggur til og komst inn í sendingu í síðustu sókn Úkraínu og þannig mætti lengja telja. Hörður Axel og Haukur stálu einnig boltanum á mikilvægum augnablikum og nýttu þar alla sína reynslu. 

Lið Íslands: 

Elvar Már Friðriksson, Haukur Helgi Briem Pálsson, Hilmar Pétursson, Hörður Axel Vilhjálmsson,  Jón Axel Guðmundsson, Kári Jónsson, Kristófer Acox, Sigtryggur Arnar Björnsson, Styrmir Snær Þrastarson, Tryggvi Snær Hlinason, Þórir Guðmundur Þorbjarnarsson, Ægir Þór Steinarsson fyrirliði.

Ísland 91:88 Úkraína opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert