Haukar með besta liðið í vetur?

Helena Sverrisdóttir og samherjar í Haukum hafa betur gegn Njarðvík …
Helena Sverrisdóttir og samherjar í Haukum hafa betur gegn Njarðvík ef marka má spárnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Haukar verða með besta liðið í úrvalsdeild kvenna, Subway-deildinni, á komandi keppnistímabili samkvæmt spá bæði félaganna og fjölmiðla sem birt var á kynningarfundi deildarinnar nú í hádeginu.

Spárnar tvær voru nákvæmlega eins, liðin átta eru í sömu sætum í þeim báðum, en samkvæmt þeim verður Njarðvík það lið sem helst getur veitt Haukum keppni, og síðan Valur. Keflavík yrði fjórða liðið til að komast í úrslitakeppnina á kostnað Fjölnis.

Breiðablik og Grindavík halda sætum sínum í deildinni samkvæmt spánum en nýliðar ÍR þykja líklegastir til að verma botnsætið og falla niður í 1. deild á ný.

Félögin spáðu einnig fyrir um 1. deild kvenna og þar er Ármanni spáð nokkuð öruggum sigri en KR og Stjarnan deila öðru og þriðja  sætinu.

Niðurstaðan í tölum er þessi:

Subway-deild kvenna (félög - fjölmiðlar)

1 Haukar 254 - 86
2 Njarðvík 209 - 71
3 Valur 199 - 64
4 Keflavík 129 - 47
5 Fjölnir 100 - 33
6 Breiðablik 83 - 28
7 Grindavík 76 - 22
8 ÍR 30 - 9

1. deild kvenna (félög)

1 Ármann 150
2-3 KR 115
2-3 Stjarnan 115
4-5 Þór Ak. 92
4-5 Aþena/Leiknir/UMFK 92
6 Hamar/Þór 74
7 Snæfell 50
8 Tindastóll 49
9 Breiðablik b 28

Keppni í úrvalsdeild kvenna hefst með leik Vals og Breiðabliks næsta þriðjudag, 20. september, en hinir þrír leikir fyrstu umferðar fara fram miðvikudaginn 21. september. Keppni í 1. deild kvenna hefst 21. september þegar Þór leikur við Ármann á Akureyri og Snæfell við KR í Stykkishólmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert