Jamie Cherry, bandarískur leikmaður kvennaliðs ÍR í körfuknattleik, segir að liðið, sem er nýliði í úrvalsdeildinni, Subway-deildinni, á komandi tímabili muni koma á óvart á því.
Kvennalið ÍR lék síðast í efstu deild tímabilið 2003/2004 og var liðinu fyrir tímabilið, sem hófst í gær, spáð áttunda og neðsta sæti, fallsæti, af bæði félögunum og fjölmiðlum á kynningarfundi deildarinnar í síðustu viku.
„Við höfum það nokkuð gott. Við erum að bæta okkur á hverjum degi og þurfum þess sannarlega með þar sem við erum nýliðar í deildinni.
Við erum komin í efstu deild í fyrsta skipti í langan tíma og tökum einn dag í dag í einu í viðleitni til þess að bæta okkur,“ sagði Cherry í samtali við mbl.is á fundinum fyrir viku síðan.
Hún sagði spána ekki koma ÍR-ingum á óvart en að liðið væri staðráðið í að halda sæti sínu í deildinni.
„Við ætlum auðvitað að afsanna þessa spá. Þetta er eðlilegt þar sem við erum nýliðar en við munum pottþétt koma mörgu fólki á óvart.
Við notum þetta vitanlega til þess að hvetja okkur til dáða og bæta okkur á hverjum degi. Þetta verður gott og skemmtilegt tímabil.“
Spurð hvað ÍR þyrfti að gera til þess að sjá til þess að halda sæti sínu í deild þeirra bestu sagði Cherry að lokum:
„Við þurfum svo sannarlega að leggja hart að okkur á hverjum degi og leggja á okkur vinnuna. Á hverjum degi tökum við skref áfram.
Þar sem við erum ný í deildinni erum við að fá tilfinningu fyrir henni og fikra okkur áfram. Við ætlum að reyna að bæta okkur daglega og halda áfram.“
ÍR sækir Hauka heim á Ásvelli í 1. umferð Subway-deildarinnar í kvöld.