Hákon aftur í Breiðholtið

Hákon Örn Hjálmarsson (t.h.) í leik með ÍR árið 2018.
Hákon Örn Hjálmarsson (t.h.) í leik með ÍR árið 2018. mbl.is/Árni Sæberg

Hákon Örn Hjálmarsson hefur samið við körfuknattleiksdeild ÍR um að leika með karlaliðinu á komandi tímabili.

Hákon Örn hefur undanfarin þrjú ár leikið með Binghampton Bearcats í bandaríska háskólaboltanum.

Í tilkynningu frá körfuknattleiksdeild ÍR segir að hann sé kominn hingað til lands og hafi þegar hafið æfingar með liðinu.

Samkvæmt tilkynningunni kvaðst Hákon Örn vera mjög spenntur fyrir komandi vetri og gæti í raun hreinlega ekki beðið. Hann væri sérlega spenntur fyrir samstarfinu með [Ísak] Wíum þjálfara sem hafi ekki þurft að sannfæra hann um að ganga til liðs við félagið sitt á nýjan leik, en Hákon Örn er uppalinn hjá ÍR.

„Ekki þarf að fjölyrða um getu Hákonar og þá miklu viðbót sem hann færir liðinu enda var hann fyrir dvölina í Bandaríkjunum þegar orðinn einn af lykilmönnum öflugs hóps liðsins sem spilaði til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn árið 2019.

Eftir þriggja ára dvöl í landi hinna frjálsu, heimili þeirra hugrökku, hefur hann bætt í vopnabúr sitt sem endurspeglast m.a. í því að hann er nú hluti æfingahóps A-landsliðs karla.

Við bjóðum Hákon Örn innilega velkominn heim í Breiðholtið og hlökkum til að sjá hann á parketinu í vetur. Á sama tíma minnir fréttadeildin á fyrsta leik keppnistímabilsins þann 6. október nk. á nýjum og glæsilegum heimavelli okkar í Mjóddinni,“ sagði einnig í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert