Álftanes vann stórleik fyrstu umferðarinnar

Dúi Þór Jónsson skorar fyrir Þór í leik í úrvalsdeildinni …
Dúi Þór Jónsson skorar fyrir Þór í leik í úrvalsdeildinni í fyrra en nú leikur hann með Álftanesi og var stigahæstur gegn Þór. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Álftanes lagði Þór frá Akureyri að velli, 90:85, í stórleik fyrstu umferðar 1. deildar karla í körfuknattleik en öll umferðin var leikin í gærkvöld.

Þórsarar féllu úr úrvalsdeildinni en Álftanes hefur gert sig líklegt til að slást um úrvalsdeildarsæti í vetur og þessi sigur gefur liðinu eflaust byr undir báða vængi.

Dúi Þór Jónsson skoraði 24 stig fyrir Álftanes og Cedrick Taylor Bowen 21 en Tarojae Ali-Paishe Brake skoraði 30 stig fyrir Þórsara.

Landsliðsmaðurinn Ragnar Nathanaelsson sneri aftur til Hamars í sumar eftir langa fjarveru og hann skoraði 19 stig og tók 13 fráköst í sigri gegn Hrunamönnum á Flúðum, 105:87.

Austin Magnus Bracey skoraði 23 stig fyrir nýliða Ármanns sem fóru vel af stað með sigri á Skallagrími, 93:81.

Úrslit í fyrstu umferðinni urðu þessi:

Ármann - Skallagrímur 93:81
Fjölnir - Selfoss 100:89
Hrunamenn - Hamar 87:105
ÍA - Sindri 75:80
Álftanes - Þór Ak. 90:85

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert