Íslandsmeistarar Vals í körfuknattleik karla gerðu góða ferð til Grindavíkur og unnu þar með naumindum sinn fyrsta sigur í úrvalsdeildinni, Subway-deildinni, á tímabilinu. Leikurinn var hluti af 2. umferð deildarinnar og vann Valur 68:67 eftir hörkuleik.
Valur byrjaði leikinn betur og leiddi með sex stigum, 20:14, að loknum fyrsta leikhluta.
Í öðrum leikhluta var Grindavík hins vegar sterkari aðilinn og var búið að minnka muninn niður í aðeins eitt stig þegar fyrri hálfleikur var úti.
Staðan því 36:35, Val í vil, í leikhléi.
Í síðari hálfleik var allt í járnum og var það ekki fyrr en í blálok leiksins, þegar rúm mínúta var eftir, að Valur náði að slíta sig aðeins frá Grindvíkingum þegar staðan var orðin 64:58.
Grindavík gafst ekki upp og minnkaði muninn niður í aðeins eitt stig, 68:67, á lokasekúndunni en illu heilli fyrir heimamenn gafst ekki meiri tími.
Kærkominn fyrsti sigur Íslandsmeistaranna því niðurstaðan.
Bæði lið hafa nú unnið einn leik og tapað einum eftir fyrstu tvær umferðirnar.
Stigahæstur hjá Val var Króatinn Ozren Pavlovic með 14 stig auk þess sem hann tók átta fráköst.
Fyrirliðinn Kristófer Acox var einnig öflugur í frákastabaráttunni og 13 slík ásamt því að skora sjö stig.
Stigahæstur hjá Grindavík var Bandaríkjamaðurinn David Azore, einnig með 14 stig. Hann tók þá níu fráköst.
Ólafur Ólafsson var skammt undan með 13 stig og var líkt og Kristófer öflugur í frákastabaráttunni þar sem hann tók sömuleiðis 13 fráköst.
Flest fráköst í leiknum tók hins vegar Grikkinn Gaios Skordilis, 14 talsins, ásamt því að skora tíu stig.
HS Orku-höllin, Subway deild karla, 14. október 2022.
Gangur leiksins:: 5:1, 9:7, 10:14, 14:20, 20:24, 23:26, 30:31, 35:36, 38:36, 40:43, 45:48, 50:50, 52:50, 54:52, 54:59, 67:68.
Grindavík : David Tinarris Azore 14/9 fráköst, Ólafur Ólafsson 13/13 fráköst, Gkay Gaios Skordilis 10/14 fráköst, Bragi Guðmundsson 9/5 fráköst, Evangelos Tzolos 8, Valdas Vasylius 8/4 fráköst, Kristófer Breki Gylfason 3, Hilmir Kristjánsson 2.
Fráköst: 33 í vörn, 14 í sókn.
Valur: Ozren Pavlovic 14/8 fráköst, Ástþór Atli Svalason 12, Pablo Cesar Bertone 11/4 fráköst, Kári Jónsson 11/6 stoðsendingar, Kristófer Acox 7/13 fráköst, Frank Aron Booker 6/5 fráköst, Hjálmar Stefánsson 4/4 fráköst, Benedikt Blöndal 3.
Fráköst: 28 í vörn, 10 í sókn.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Aron Rúnarsson.
Áhorfendur: 250