Styrmir Snær Þrastarson, landsliðsmaður í körfuknattleik, er genginn aftur í raðir uppeldisfélags síns, Þórs frá Þorlákshöfn.
Á síðasta tímabili lék Styrmir Snær, sem er 21 árs, með liði Davidson í háskólaboltanum í Bandaríkjunum.
Tímabilið á undan hjálpaði hann Þór að verða Íslandsmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins, þá aðeins 19 ára gamall.
Hvergi var formlega tilkynnt um endurkomu hans til Þórs en hann er í byrjunarliði liðsins gegn Haukum í 2. umferð úrvalsdeildar karla, Subway-deildarinnar, sem stendur nú yfir í Ólafssal að Ásvöllum.