Hann er eins og geimvera

Victor Wembanyama hefur vakið gríðarlega athygli að undanförnu enda með …
Victor Wembanyama hefur vakið gríðarlega athygli að undanförnu enda með einstaka hæfileika í bland við að vera með stærstu mönnum. AFP/Steve Marcus

Vikurnar fyrir byrjun keppnistímabilsins einbeita bæði fréttafólk og framkvæmdastjórar í NBA-körfuboltanum sér venjulega að því hvaða áhrif breyttir leikmannahópar hafa á árangur liðanna á keppnistímabilinu.

Sú einblínum breyttist heldur betur þegar 18 ára gamall Frakki, Victor Wembanyama (2,23 metrar á hæð) hóf að leika í G-deildinni, sem NBA-liðin nota til að þróa yngri leikmenn sem ekki fara í háskólaboltann.

Wembanyama lék svo vel strax í fyrsta leiknum að þeir sem til sáu fóru strax að hugsa sér hvað lið væru tilbúin að gera til að nappa þennan leikmann. Hann virðist hafa ótrúlega hæfileika miðað við svo háan leikmann og spádómar um möguleika hans hafa ekki verið eins miklir síðan LeBron James var í gagnfræðaskóla á sínum tíma.

„Maður sér aldrei leikmenn sem maður er að kíkja á og meta, leika eins vel og hann gerði,“ sagði einn af njósnurum NBA-liðs eftir að Wembanyama lék sinn fyrsta leik.

Talið er að þegar líða fer á deildakeppnina muni liðin með lélegasta árangurinn fara að hugsa sig um að gefa sigra í síðustu leikjunum upp á bátinn til að auka möguleika sína í að geta náð fyrsta sætinu í leikmannavalinu á næsta ári. Ef Wembanyama uppfyllir þær væntingar sem til hans eru gerðar, má búast við að hann muni auka verðmæti þess liðs sem velur hann allt að hálfum milljarði Bandaríkjadala.

Victor Wembanyama gefur eiginhandaráritanir eftir sýningarleik í Nevada í síðustu …
Victor Wembanyama gefur eiginhandaráritanir eftir sýningarleik í Nevada í síðustu viku. AFP/Steve Marcus

Nær óendanlegir hæfileikar

Sérfræðingar telja að kappinn hafi nær óendanlegt „þak“ hvað varðar hæfileika. Möguleikar hans að breyta væntingum og árangri þess liðs sem mun nappa hann í valinu eru svo miklir að forráðamenn deildarinnar munu þurfa að hafa gætur á hvernig að þessi staða spilar út seinnipartinn í deildakeppninni.

Við höfum reyndar séð þessa stöðu áður varðandi svo háa leikmenn og möguleika þeirra á að verða stjarna í deildinni. Það sem skilur Wembanyama frá mörgum öðrum að hann hefur hæfileika sem ekki hafa sést áður hjá svo háum leikmönnum. Hann er bæði góð þriggja stiga skytta og hefur mun betra vald á hreyfingum sínum en aðrir svo háir leikmenn hafa haft áður. Hann getur til að mynda losað sig við varnamann nálægt teignum og í næstu hreyfingu lagt boltann í körfuna.

„Hann er eins og geimvera. Ég hef aldrei áður séð svo háan leikmann svo fljótandi í hreyfingum úti á vellinum. Hæfileikar hans að rekja boltann, stoppa svo á punkti og taka skot nálægt teignum, og blokka skot í vörninni eru ótrúlegir. Hann hefur augljóslega kynslóðahæfileika sem maður sér ekki oft,“ sagði LeBron James eftir að hafa fylgst með fyrsta leik Wembanyama.

Tekið í taumana ef lið gefast upp

Adam Silver, forseti NBA, hefur ítrekað sagt undanfarin ár að deildin muni taka í taumana á þeim liðum sem hreinlega gefast upp síðasta mánuðinn í deildinni, enda er þetta alvarlegt vandamál fyrir orðstír deildarinnar. Silver hefur bent á að þeir sem kaupi miða á leiki og eða horfi á þá í sjónvarpinu (svo ekki sé talað um veðbankana!), hafi ákveðnar væntingar um að bæði lið í hverjum leik muni reyna að leika til sigurs.

Hvort þær hótanir munu hafa áhrif á þessi lið þegar til kemur, mun koma í ljós næsta vor.

Þess má geta að ef Wembanyama væri ekki með í dæminu þetta árið, myndi Scoot Henderson, 18 ára gutti í gagnfræðaskóla í Georgíufylki, fara fyrstur í leikmannavalinu, en hann er talinn mikið efni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert