Öruggt hjá Haukum gegn Íslandsmeisturunum

Elísabeth Ýr Ægisdóttir, Aliyah Collier og Eva Margrét Kristjánsdóttir í …
Elísabeth Ýr Ægisdóttir, Aliyah Collier og Eva Margrét Kristjánsdóttir í leik Hauka og Njarðvíkur í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn síðastliðið vor. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

Haukar unnu afar sterkan 79:64-sigur á ríkjandi Íslandsmeisturum Njarðvíkur þegar liðin áttust við í 6. umferð Subway-deildar í Ólafssal að Ásvöllum í kvöld.

Njarðvík var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddi með fimm stigum, 35:30, þegar flautað var til leikhlés.

Í síðari hálfleik tóku Haukar aftur á móti leikinn alfarið yfir og kafsigldu raunar gestina þar sem staðan var orðin 57:43 að loknum þriðja leikhluta.

Haukar voru áfram með undirtökin í fjórða og síðasta leikhluta og sigldu að lokum öruggum 15 stiga sigri í höfn.

Eva Margrét Kristjánsdóttir var stigahæst í liði Hauka með 19 stig og tók hún einnig 14 fráköst. Tinna Guðrún Alexandersdóttir var skammt undan með 18 stig.

Aliyah Collier fór einu sinni sem áður fyrir Njarðvík og átti sannkallaðan stórleik. Skoraði hún 26 stig og tók 18 fráköst ásamt því að gefa sex stoðsendingar.

Haukar eru áfram í öðru sæti deildarinnar, nú með 10 stig. Njarðvík fylgir þar á eftir í þriðja sætinu með 8 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert