Lakers kastaði sigrinum frá sér

Shaedon Sharpe í baráttu við LeBron James í gærkvöldi.
Shaedon Sharpe í baráttu við LeBron James í gærkvöldi. AFP/Kevork Djansezian

LA Lakers fór illa að ráði sínu og tapaði þriðja leik sínum í röð í NBA-deildinni í körfuknattleik karla þegar liðið mætti Portland Trail Blazers seint í gærkvöldi.

Lakers var með yfirhöndina nánast allan síðari hálfleikinn og var til að mynda komið í 98:90 forystu í fjórða og síðasta leikhluta.

Portland gafst hins vegar ekki upp og náði að snúa taflinu við áður en yfir lauk og vann frækinn 106:104-sigur eftir að Jerami Grant setti niður sniðskot þegar þrjár sekúndur voru eftir á leikklukkunni.

Damian Lillard átti stórleik í liði Portland og skoraði 41 stig.

Gamla brýnið LeBron James fór þá fyrir Lakers og skoraði 31 stig ásamt því að taka átta fráköst og gefa átta stoðsendingar.

Alls fóru sjö leikir fram í NBA-deildinni í gærkvöldi og í nótt.

Öll úrslitin:

LA Lakers - Portland 104:106

Atlanta – Charlotte 109:126

Cleveland – Washington 117:107 (frl.)

New Orleans – Utah 121:122 (frl.)

Oklahoma – Minnesota 106:116

Golden State – Sacramento 130:125

LA Clippers – Sacramento 95:112

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert