Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik tekur á móti því georgíska í lokaumferð undankeppni HM 2023 í Laugardalshöllinni næstkomandi föstudagskvöld.
Með georgíska liðinu í för er Tornike Shengelia sem lék um skeið í NBA-deildinni í Bandaríkjunum. Þar var hann á mála hjá Brooklyn Nets frá 2012 til 2014 og lék svo hluta ársins 2014 með Chicago Bulls.
Í dag leikur Shengelia, sem er stór og stæðilegur kraftframherji, með Virtus Bologna í ítölsku A-deildinni og EuroLeague.
Í leikmannahópi Georgíu eru hins vegar tveir núverandi leikmenn í NBA-deildinni fjarverandi fyrir verkefnið gegn Íslandi.
Það eru þeir Sandro Mamukelashvili, leikmaður Milwaukee Bucks, og Goga Bitadze, leikmaður Indiana Pacers.
Leikmannahópur Georgíu fyrir leikinn gegn Íslandi:
Rati Andronikashvili, Givi Bakradze, Beka Bekauri, Mikheil Berishvili, Merab Bokolishvili, Beka Burjanadze, Kakhaber Jintcharadze, George Korsantia, Ilia Londaridze, Thaddus McFadden, Aleksandre Phevadze, Revaz Rogava, Duda Sanadze, Tornike Shengelia, Giorgi Shermadini, George Tsintsadze, Giorgi Turdziladze.